151. löggjafarþing — 28. fundur,  27. nóv. 2020.

kjaramál flugvirkja Landhelgisgæslu Íslands.

351. mál
[20:25]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við greiðum hér atkvæði um bann á verkfall flugvirkja Landhelgisgæslunnar. Af hverju? Af því að það er neyðarástand, af því að öryggi fólks er undir. Og af hverju er öryggi fólks undir? Af því að dómsmálaráðherra og ríkisstjórnin hafa ekki sinnt verkefni sínu, af því að þau hafa vanrækt að skerpa á lögum um Landhelgisgæsluna, um hlutverk hennar og um hlutverk starfsfólks. Þau hafa vanrækt að tryggja að öryggiskeðjan haldi. Þess vegna erum við hér. Það er að mati okkar í Viðreisn einfalt mál að greiða þessu máli atkvæði okkar vegna þeirrar stöðu sem við erum í, vegna þeirrar stöðu að hagsmunir almennings eru undir. En hin pólitíska ábyrgð á því að þetta óæskilega inngrip Alþingis í verkfallsaðgerðir er nauðsynlegt er á herðum dómsmálaráðherra og hún er á herðum ríkisstjórnarinnar.