151. löggjafarþing — 28. fundur,  27. nóv. 2020.

kjaramál flugvirkja Landhelgisgæslu Íslands.

351. mál
[20:38]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U):

Virðulegi forseti. Lagasetning í kvöld mun ekki bjarga því alvarlega ástandi sem ríkir í öryggismálum þjóðarinnar núna um helgina, svo illa er komið vegna aðgerðaleysis ríkisstjórnarinnar gagnvart því að semja við flugvirkja Landhelgisgæslunnar. Enginn efast um að ríkir almannahagsmunir séu í húfi, en ekki hefur verið sýnt fram á að allar aðrar leiðir hafi verið reyndar til þrautar. Þá á ég ekki við við samningaborðið heldur leiðir til að tryggja lágmarksrekstur Landhelgisgæslunnar til að sinna öryggihlutverkinu þrátt fyrir verkfallið.

Ég verð að nefna þau ummæli hæstv. forsætisráðherra, þótt hún vilji ekki að við tengjum þessi mál saman, að ríkissáttasemjari ætti frekar að hafa heimild til að fresta verkföllum. Ég vona að ekki komi til þess að sú breyting gegn möguleikum vinnandi fólks til að berjast fyrir kröfum sínum, verði nokkurn tímann að veruleika af því að þetta harðneskjulega inngrip í rétt vinnandi fólks til að berjast fyrir kjörum sínum, að (Forseti hringir.) setja lög og neyða það úr verkfalli, á að eiga sér stað í þessum sal þannig að fólk (Forseti hringir.) standi fyrir framan þjóðina þegar það greiðir atkvæði með því.