151. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2020.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2021.

5. mál
[16:09]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir framsöguna og vildi aðeins eiga orðastað við hann um kolefnisskattinn sem á nú að hækka um áramótin eins og hefur verið gert. Þetta er tiltölulega nýr skattur á Íslandi, lagður á jarðefnaeldsneyti til að draga úr útblæstri og hvetja til orkuskipta í samgöngum. Nú um áramótin á skatturinn að hækka þannig að hann verður 11 kr. og 75 aurar á hvern lítra af dísilolíu og 10 kr. og 25 aurar á hvern lítra af bensíni. Auðvitað hefur það áhrif til hækkunar verðbólgu eins og aðrar verðlagshækkanir ríkisstjórnarinnar sem eru vanabundnar um hver áramót.

Ég vildi spyrja hv. þingmann og fara kannski aðeins nánar í það að þessi skattur hefur hækkað verulega í tíð þessarar ríkisstjórnar. Þegar ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur tók við skilaði skatturinn 3,5 milljörðum í ríkissjóð árlega en á að skila í þessum fjárlögum 6,1 milljarði kr. Þetta hefur að sjálfsögðu neikvæð áhrif fyrir heimilin í landinu og atvinnulífið og það sem er athyglisverðast við þennan skatt er að Hagfræðistofnun Háskóla Íslands gerði úttekt á honum í júlí og skilaði skýrslu, sem er mjög athyglisverð og einkennilegt hvað hún hefur fengið litla umfjöllun í fjölmiðlum, og niðurstaðan er einkum sú að skatturinn bitni á efnalitlu fólki og hafi neikvæð áhrif á kjör þess og neyslu. Rökstyðja þurfi hvers vegna skatturinn sé lagður á, hann þurfi að vera mjög hár til að virka og landsframleiðsla og atvinna minnki eftir að kolefnisskatturinn er lagður á.

Ég vildi spyrja hv. þingmann hvort hann telji ekki eðlilegt, (Forseti hringir.) í ljósi þeirrar skýrslu, að endurskoða og fara yfir þennan skatt.