151. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2020.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2021.

5. mál
[16:18]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það vill nú svo til að ég hef a.m.k. í tvígang ef ég man rétt lagt fram frumvarp um lækkun á erfðafjárskatti. Hv. þingmaður ætti að vita það. Ég vildi lækka erfðafjárskattinn að minnsta kosti niður í 5% upp að 75 milljónum, ef ég man rétt, og halda síðan skattprósentunni. Þar var ég að koma til móts við hv. þingmann um þrepaskipt skattkerfi sem hv. þingmaður veit að mér er mjög á móti skapi vegna þess að ég vil helst hafa bara eina flata skattprósentu, hvort heldur er í tekjuskatti eða ekki.

Ég hef áður sagt hér af öðru tilefni að mér finnst það vont og mér sárnar það, og ég er kannski ekki síst sár út í sjálfan mig, að okkur hafi ekki auðnast hér í þessum þingsal að endurskoða tryggingakerfi öryrkja á Íslandi. Það á við um frítekjumark atvinnutekna en það á líka við um allt kerfið. Ýmsar ástæður eru fyrir því en það breytir ekki því að það er vont fyrir okkur að þurfa ár eftir ár að horfast í augu við það að okkur auðnast ekki sameiginlega að koma í gegn kerfisbreytingum á tryggingakerfi öryrkja sem tryggir hag þeirra eins og við viljum gera. Þetta snýst nefnilega ekki bara um að hækka frítekjumark atvinnutekna. Þetta snýst um að skera tryggingakerfið upp, gera það manneskjulegra, gera það skiljanlegra og grípa utan um þennan hóp sem þarf á aðstoð okkar að halda.

Herra forseti. Ég nota yfirleitt ekki stór orð en ég ætla bara að segja það hér að það er skömm okkar að hafa ekki klárað það mál.