151. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2020.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2021.

5. mál
[17:12]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Steindóri Valdimarssyni framsöguna þar sem hann mælti fyrir nefndaráliti 2. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar. Fyrst langar mig að koma inn á sjónarmið hv. þingmanns og það sem fram kemur í nefndarálitinu varðandi kolefnisgjaldið sem virðist að miklu leyti vera að 2. minni hluti taki undir sjónarmið Landverndar. Þar segir m.a., og ég lít svo á að með þessu sé minni hlutinn að gera þessi orð að sínum að nokkru marki, með leyfi forseta:

„Auk þess hafa alþjóðastofnanir og nágrannalönd okkar sýnt fram á að hátt kolefnisgjald virkar vel án þess að hafa neikvæð áhrif á efnahaginn.“

Nú verð ég bara að spyrja hvort hv. þm. Jón Steindór Valdimarsson, þingmaður Viðreisnar sem a.m.k. stundum telur sig vera hægra megin við miðju, sé raunverulega þeirrar skoðunar að há kolefnisgjöld virki vel án þess að hafa neikvæð áhrif á efnahaginn. Síðan er hér til viðbótar lagt til og sagt, með leyfi forseta: „Nauðsynlegt er að hækka kolefnisgjald …“

Síðan segir:

„2. minni hluti leggur til að fyrsta skrefið verði stigið nú og að í stað 2,5% hækkunar verði gjöldin hækkuð um 5% …“

Þarna er lögð til tvöföldun á hækkun kolefnisgjaldsins miðað við það sem er lagt til í frumvarpinu. Mig langar til að biðja hv. þingmann að fara yfir annars vegar það hvaða markmið hann telji að náist fram með því að hækka gjaldið 100% meira en lagt er fram í frumvarpi hæstv. fjármálaráðherra og hins vegar þá sýn sem kemur fram hér (Forseti hringir.) um að hátt wkolefnisgjald virki vel án þess að hafa neikvæð áhrif á efnahaginn.