151. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2020.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2021.

5. mál
[17:17]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Nú hef ég ekki skoðað þessa skýrslu Háskóla Íslands og mun kannski grípa tækifærið og gera það áður en kemur að ræðu minni hér á eftir. En það er samt þannig að hæstv. umhverfisráðherra hefur í svörum staðfest það sem alla vega ég og félagar mínir í Miðflokknum töldum augljóst af gögnum málsins, að ekki væri hægt að festa hendi á hvaða árangur hefur náðst með kolefnisgjaldinu hingað til. Sýn mín hefur verið sú að það sé algerlega galið að viðhalda hér milljarða gjaldi sem leggst á fyrirtæki og heimili landsins með háleitum og fallegum markmiðum en það sem eftir standi sé bara gjaldtakan, það sé enginn raunverulegur árangur að nást, a.m.k. enginn árangur sem hönd á festir. Það er ekkert sem bendir til þess að árangur sé að nást miðað við markmiðin, af tölum að dæma um ferðalög, eldsneytisnotkun og þar fram eftir götunum.

Nú leggur hv. þingmaður til í minnihlutaáliti 2. minni hluta að hækkunin verði 100% meiri en lagt er til í frumvarpinu eins og það liggur fyrir. Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvað hann telji að þurfi að hækka kolefnisgjaldið mikið til þess að það fari, eins og hann orðar það, að virka, að bíta, að raunverulega hindra fólk í að aka bílunum sínum, að leggja það mikinn kostnað á flutningafyrirtæki að gjöld til kúnna hækki það mikið að flutningar minnki, að fólk fljúgi færri flugferðir þegar löndin opnast aftur, hvað telur hv. þingmaður að kolefnisgjaldið þurfi að hækka mikið?