151. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2020.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2021.

5. mál
[17:19]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Jón Steindór Valdimarsson) (V) (andsvar):

Herra forseti. Enn þakka ég hv. þingmanni fyrir andsvarið og spurningarnar. Ég ætla aðeins að rifja það upp að á sínum tíma þegar Viðreisn var, sællar minningar, í ríkisstjórn og átti fjármálaráðherra voru kolefnisgjöld hækkuð einmitt út af þeim sjónarmiðum sem ég rakti áður. En það brá svo við að þegar aðrir tóku við stjórnartaumunum eftir skamman líftíma þeirrar ríkisstjórnar, m.a. þeir sem tala mest um að vera miklir umhverfissinnar, létu þeir það vera sitt fyrsta verk að vinda ofan af þeim gjöldum. Þannig að við höfum alltaf verið þeirrar skoðunar að kolefnisgjald sé mjög gagnlegt tæki í þessu samhengi. En ég tek það fram að ef ætlunin er að hafa áhrif á hegðun fólks í gegnum gjöld þurfa auðvitað samhliða að vera jákvæðir hvatar í kerfinu, grænir hvatar, og við höfum svo sem of lítið af þeim.

Af því að hv. þingmaður spurði beint hvað ég teldi að gjaldið þyrfti að vera til að það skilaði raunverulegum árangri þá ætla ég ekki að leggja á það sjálfstætt mat hér og nú. Ég vil bara benda á umrædda skýrslu. Ég er ekki að segja að ég geri þau orð endilega að mínum en þar er bent á að gjöldin þyrftu trúlega að vera 30% hærri. Ég vitna í skýrslu Háskólans sem var tekin upp fyrr í umræðunni. Einhvers staðar er þessi stærðargráða en aðalmarkmiðið sem við megum ekki missa sjónar á er (Forseti hringir.) að við erum að gera þessa hluti til að ná fram brýnum markmiðum og þetta er ein af þeim leiðum sem er fær í þeim efnum.