151. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2020.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2021.

5. mál
[17:31]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Mig langar til að byrja umfjöllun mína um þetta frumvarp á því að nefna að ég hafði upprunalega hugsað mér að skila sérnefndaráliti en náði því ekki af ýmsum ástæðum og var þó alveg tilefni til. Það er auðvelt að byrja á því að taka undir með báðum minni hlutum nefndarinnar sem voru með ágæt nefndarálit og góðar tillögur. Ég held að það sé ekki ósanngjarnt að segja að þetta frumvarp sé í sjálfu sér bara það sem við mátti búast frá þessari ríkisstjórn og er það ekkert rosalega jákvæð umsögn. Það er ákveðinn kerfislægur vandi í því hvernig þessi ríkisstjórn hefur nálgast tekjuhlið ríkisútgjalda og ríkisfjármála og kannski sér í lagi hvernig það hefur birst í framkvæmdinni síðustu árin. Þetta er engin undantekning þar á og ætla ég að tala aðeins um nokkra þætti þess.

Mig langar að byrja á að nefna stóran kerfislægan hlut sem snýr hreinlega að því að skattkerfi Íslands er sett upp á ákveðnum forsendum sem ég er ekki viss um að séu endilega réttar lengur. Þær voru kannski réttar einhvern tímann. Það hafa rosalega miklar framfarir átt sér stað í samfélaginu og þær framfarir gera það að verkum að við verðum hreinlega að spyrja okkur til hvers þetta kerfi er, fyrir hverja, hverjum það þjónar og hverjum ekki, og kannski ekki síst hvert raunverulegt og endanlegt markmið er með gjaldtöku.

Þegar við horfum á þá stefnu sem rekin hefur verið af sér í lagi Sjálfstæðisflokknum, en líka öðrum flokkum í gegnum tíðina, þá sjáum við að smám saman hefur skattbyrðinni verið velt frá almennum sköttum eins og tekjuskatti og öðru, yfir á gjaldskrárhækkanir. Þetta hefur verið ferli sem verið hefur í gangi mjög lengi og er áframhald á því í þessu frumvarpi, hækkanir á gjaldskrá sem ekki hefur verið tekin til endurskoðunar. Við vitum t.d. ekki hvað það kostar raunverulega að veita þá þjónustu sem fellur undir gjaldskrána.

Það er vissulega pólitík í því að sumt í gjaldskrá ríkisstofnana og ríkisins almennt eru atriði sem við höfum hreinlega pólitíska sýn á. Við höfum t.d., held ég, flest sameiginlegan skilning á því að það á ekki að rukka mikið fyrir komu á heilsugæslu. Við viljum hafa það gjald lágt, sumir myndu jafnvel segja að það ætti ekki að vera neitt. Á sama tíma höfum við flest þá skoðun að kolefnisgjald þurfi að vera til staðar og þurfi jafnvel að vera hærra en það er í dag. En mjög margt í gjaldskrám ríkisins er rökstutt með einhvers konar tilvísun í að það kosti einhverja peninga, en ekki hefur farið fram nein könnun á því hvað kostar að veita þá þjónustu sem liggur þar að baki. Það er vandamál sem þyrfti að horfa svolítið á. Ég er búinn að biðja um það í mörg ár að þetta verði tekið til skoðunar, hreinlega vegna þess að þetta er byrjað að bitna meira og meira á þeim sem minnstar hafa tekjurnar og er í rauninni ákveðið leikrit sem leikið hefur verið þar sem skattar eru látnir líta út fyrir að fara lækkandi þrátt fyrir að raunkostnaður fólks vegna þessara gjalda fari hækkandi. Þetta er í rauninni laumuskattur að því leytinu til. Ég er ekki hrifinn af slíkum leikritum, herra forseti.

Nú langar mig að tala aðeins um nokkur atriði. Ég ætla að byrja á sóknargjöldum. Nokkrar umsagnir komu til nefndarinnar sem sneru að sóknargjöldunum þar sem farið var fram á að þau yrðu hækkuð, meira að segja nokkuð verulega með tilvísun til þess að mikið álag hafi verið á þessu ári. Ég get vel skilið að það hafi verið mikið álag á þessu ári. Ég átta mig að vísu ekki á því hvernig það álag tengist kostnaði sóknanna við t.d. viðhald á byggingum. Ég hefði haldið að það myndi í rauninni haldast nokkuð óbreytt milli ára. En hitt er annað mál að hérna er verið að gera breytingu af hálfu meiri hlutans sem snýr að því að færa, að ég held, 280 millj. kr. til sóknanna á sama tíma og aðhaldskrafa er á Landspítalann upp á 400 millj. kr., og meira þegar horft er til þess að þeim er í rauninni gert að skila halla þessa árs. Ég hefði haldið að á þessu ári, þegar við höfum þurft að reiða okkur á heilbrigðiskerfið sem aldrei fyrr, yrði kannski meiri áhugi á því að tryggja gott fjármagn til heilbrigðiskerfisins heldur en til trúfélaga og annars slíks. Það hefur vissulega mikið mætt á mörgum trúfélögum og fyllilega eðlilegt að styðja við þau að því leyti sem það er fyrirskipað í lögum. En þetta fær mann til að velta því fyrir sér hvort það sé ekki eðlilegt, í ljósi þess að margar sóknir halda utan um gamlar kirkjur sem eru í rauninni mikil menningarverðmæti, hvort það væri ekki eðlilegra að það væri betri aðbúnaður fyrir sóknirnar, að þær gætu leitað í einhvers konar sameiginlega sjóði til að varðveita byggingarnar, mikil menningarleg verðmæti, frekar en að vera stöðugt að hækka sóknargjöld eftir því sem byggingarnar verða eldri. Þetta er tillaga sem ég held að gæti bæði bætt hag sóknanna og minnkað þörfina á því að styðja við trúfélög með þessum hætti. Reyndar myndi ég líka í þessu samhengi nefna að það eru mörg áhugamannafélög, félög af ýmsu tagi, úti um allt land sem rukka sín félagsgjöld sjálf og mér þykir ástæðulaust að ríkið innheimti félagsgjöld fyrir sóknirnar sérstaklega.

Ég vildi líka nefna tíðavörur. Það kom ágætisumsögn frá tveimur ungum stúlkum í grunnskóla sem bentu á að það væri ágætt að tíðavörur væru almennt aðgengilegar á opinberum stofnunum í það minnsta, og helst að virðisaukaskattur yrði afnuminn. Vegna tillögu frá Pírötum, sem lögð hefur verið fram nokkrum sinnum og hugmyndin var reyndar í stefnuskrám ansi margra flokka mjög lengi, var fallist á það núna í vor að lækka tíðavörur niður í neðra virðisaukaskattsþrep. Mér finnst það vera mikill sigur. Það hefur ekki tíðkast að setja marga hluti í núllþrep í gegnum tíðina. En ég tek þó undir með þessum stúlkum að það væri ágætt ef sveitarfélög og ríkisstofnanir myndu almennt tryggja að þessar vörur væru aðgengilegar í byggingum þeirra. Við ættum líka sem þing að ræða það hvort ekki sé tilefni til að fylgja fordæmi Skota í þessum efnum. Nýleg lög í Skotlandi kveða á um að þessar vörur verði aðgengilegar hreinlega án endurgjalds fyrir þau sem þurfa. Ég veit ekki nákvæmlega hver afleiðingin verður af þeim lögum, það á eftir að koma í ljós, en þetta er alla vega eitthvað sem við ættum að skoða.

Það kom líka umsögn frá rekstraraðilum rafskutla um að það væri til bóta að rafskutluleigur myndu almennt falla undir sama virðisaukaskattsafslátt og aðrar almenningssamgöngur og leigubílar með þeim rökum að það væri óeðlilegt að sumar tegundir leigubifreiða, leigufarartækja, væru undanskildar virðisaukaskatti og aðrar ekki. Mér þykir mjög leiðinlegt að meiri hlutinn hafi ekki fallist á þá hugmynd, enda væri þetta bara jákvætt, sérstaklega í ljósi umhverfisverndar og síðan hreinlega jafnræðis. Það er eðlilegt að ef flestar tegundir almenningssamgangna fá þessa undanþágu, að það myndu þá allar almenningssamgöngur, líka þessar, falla þar undir. Það komu svo sem fram þau rök í nefndinni að það væri alveg tilefni til að afnema virðisaukaskattsafslátt af almenningssamgöngum, að það myndi jafnvel í einhverjum tilfellum gagnast t.d. strætó. Ég veit ekki alveg hvort ég samþykki þau rök. En að því marki sem þetta gæti verið góð leið þá er ég hissa á því að nefndin hafi ekki farið í hina áttina og meiri hluti nefndarinnar hefði lagt til að þetta yrði lagfært, alla vega væri jafnræði þá til staðar. Þetta er atriði sem ég hefði viljað sjá lagað.

Varðandi loftslagsbreytingar og kolefnisgjald þá kom hv. þm. Bergþór Ólason hér í andsvör við nokkra þingmenn varðandi kolefnisgjaldið og hækkun þess. Mér fannst ástæða til að nefna að við vitum til þess að þessi skattur skilar árangri í loftslagsmálum. Hann gæti verið töluvert hærri. Mengunarbótareglan er góð. Við vitum að ef kolefnisgjald hefði verið víðtækara, í fleiri löndum — um 40 lönd í heiminum í dag eru með kolefnisgjald af einhverju tagi — ef þetta væri víðtækara og væri að auki mun hærra gjald, er nokkuð ljóst að orkuskiptunum væri hraðað enn frekar. Þarna er kannski tilefni til að fara að skoða hvort ekki sé ástæða til þess að árangurstengja kolefnisgjöld, eins og reyndar er tillaga um í frumvarpi sem lagt hefur verið fram af Pírötum. Það væri þá þannig að ef við náum mjög góðum árangri í að takmarka útblástur gróðurhúsalofttegunda, ef árangurinn er góður þá getum við lækkað kolefnisgjaldið og ef árangurinn er slæmur þá gætum við hækkað það. Þetta er alla vega hugmynd sem við höfum lagt fram og erum þá að horfa svolítið í þetta markmið Parísarsáttmálans að takmarka gjöldin þannig. En í öllu falli þá tek ég undir með Landvernd sem benti á að 30% hækkun væri mjög eðlileg. Ég velti því fyrir mér hvenær þessi ríkisstjórn, sem vill kenna sig við umhverfisvernd að einhverju leyti, að alla vega einn þriðji hennar, fer að sinna umhverfisvernd af einhverri alvöru. Við vitum að loftslagsbreytingar eru töluverðar og ógna lífríki jarðar. Er ekki bara ágætt að fara að taka það alvarlega? Ég sá tölfræði fyrir nokkrum dögum sem sýndi að aðeins einu landi í heiminum hefði tekist að ná markmiðum Parísarsáttmálans að einhverju marki. Það kom mér á óvart að sjá að það er Marokkó.

Ég gæti svo sem farið í fleiri atriði, en ég held að ég láti tvennt fylgja að lokum, ekki síst vegna tímamarkanna. Annars vegar er það áfengisgjaldið sem nefnt var hér áðan, að hækkun þess er ekki mjög jákvæð í ljósi ástandsins í veitingageiranum og væri kannski núna ágætistilefni til að takmarka það, jafnvel lækka það hreinlega til stuðnings þeim fyrirtækjum sem þurfa á því að halda og ekki síst þeim. Það er nokkuð ljóst að það mundi skila sér líka til neytenda að einhverju leyti.

Svo er það tryggingagjaldið. Mér fannst það ágætistillaga hjá hv. þm. Jóni Steindóri Valdimarssyni áðan þegar hann nefndi að það væri kannski tilefni til að veita einhvern afslátt af tryggingagjaldi til fyrirtækja í ljósi aðstæðna. Ég nefndi það svo sem í andsvörum við hv. þingmann en langar til að endurtaka að núna í ljósi ástandsins í hagkerfinu, að það er kannski tilefni til þess að veita slíkan afslátt, ef ekki til þessara fyrirtækja sem ráða til sín nýtt starfsfólk af atvinnuleysisskrá og minnka þar með álagið á atvinnuleysisbótakerfinu, þá jafnvel til allra fyrirtækja, til skamms tíma sem hluti af viðspyrnunni við þessu ástandi. Ég veit að það eru ekki öll fyrirtæki sem koma illa út úr þessari miklu efnahagsvá og efnahagsástandi sem er að ganga yfir vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. En það er orðið ljóst að þetta yrði þá eitt form almennrar viðspyrnu í hagkerfinu sem gæti haft jákvæðar afleiðingar í för með sér. Þetta er alla vega eitthvað sem ég myndi gjarnan vilja að þingið skoðaði.

Það er svo sem ekki fleira sem ég ætla að koma inn á að sinni nema nefna kannski bara að lokum að ég vona að meiri hlutinn horfi á tillögurnar frá bæði 1. og 2. minni hluta nefndarinnar og taki þær alvarlega og jafnvel, ef ég næ að koma því við að leggja inn breytingartillögu sem snýr að t.d. virðisaukaskattinum af rafskutlum, að meiri hlutinn taki vel í það. Það er allt of algengt á þessu þingi að tillögur minni hlutans séu hunsaðar og greidd atkvæði gegn þeim án þess að horfa í þær sem eru raunverulega jákvæðar tillögur og geta verið gagnlegar.