151. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2020.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2021.

5. mál
[18:32]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Ég hjó eftir því að í ræðu sinni, og reyndar í andsvörum hér fyrr í dag, hefur hann vísað mikið í skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands. Ég verð að viðurkenna, hæstv. forseti, að mér þykir hv. þingmaður fara heldur frjálslega með og velja úr henni það sem honum hugnast. Mér finnst áhugaverð breytingartillaga sem hv. þingmaður leggur fram um að endurskoða skuli fjárhæð og tilhögun kolefnisgjaldsins. Ég get eiginlega ekki lesið annað út úr þeirri skýrslu en að kolefnisgjaldið myndi hafa enn meiri áhrif ef það væri hærra. Ég velti því fyrir mér: Er hv. þingmaður að leggja til að kolefnisgjaldið verði hækkað?

Virðulegur forseti. Þegar ég les þessa skýrslu þá get ég ekki lesið það út úr henni að með einhverjum hætti sé verið að tala gegn kolefnisgjaldi. Hafandi sagt það er ég þingmaður sem aðhyllist frekar hvata en hækkun skatta en ég átta mig líka á því að til að ná árangri í þessu máli þarf ákveðið samspil. Það er líka mikilvægt að hafa það í huga að í þessari skýrslu er ekki verið að tala um samspilið með þeim hvötum sem við höfum sett á til að ýta undir fjárfestingu í ökutækjum sem spara eldsneyti og nýta endurnýjanlega orkugjafa heldur eingöngu kolefnisgjaldið sem slíkt.

Virðulegur forseti. Gæti hv. þingmaður kannski útskýrt þetta frekar fyrir mér? Svo verð ég að nota tækifærið og kalla enn og aftur eftir því hver stefna Miðflokksins er þegar kemur að loftslagsmálum.