151. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2020.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2021.

5. mál
[18:38]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Hún var að lesa úr skýrslunni og ég skal lesa úr skýrslunni líka. Á bls. 8 segir t.d.:

„Skatturinn hefur meiri áhrif á lífskjör láglaunafólks en annarra.“

Síðan segir að það megi ráða að á tekjuháum heimilum láti menn verðhækkanir á eldsneyti sig fremur litlu varða. Ég sé ekki að þessi neyslustýring sem lagt er upp með í kolefnisskattinum sé að skila árangri hvað það varðar. Það er margt fróðlegt í þessari skýrslu og ég hvet þingmenn til að kynna sér hana. Það er farið yfir niðurstöður erlendra rannsókna á áhrifum kolefnisgjalda. Það segir t.d. hér að gerð hafi verið grein fyrir áhrifum kolefnisskatts á Írlandi (Forseti hringir.) og niðurstaðan verið sú að kolefnisskattur hefði ekki breytt notkun fólks á eldsneyti þar í landi. Og það eru fjölmörg dæmi í þessari skýrslu (Forseti hringir.) sem gera það að verkum að það verður að fara yfir þennan skatt. (BHar: … á þessu ári?) Tímans vegna get ég ekki svarað fleiri spurningum frá hv. þingmanni.