151. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2020.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2021.

5. mál
[18:44]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U) (andsvar):

Virðulegur forseti. Töluna um þann mjög litla mun sem er á meðalrekstri bíla eftir því hvar fólk á heima sá ég í einhverri kynningu í tengslum við aðgerðaáætlun í loftslagsmálum og fannst þetta svo forvitnilegt að ég fékk Samgöngustofu til að kalla eftir þessu úr gagnagrunni sínum. Þar kemur fram að meðalakstur innan höfuðborgarsvæðisins á fólksbifreið var árið 2018 12.533 km og utan höfuðborgarsvæðis 13.043 km. Þetta byggir á tölum sem koma fram við bifreiðaskoðun þannig að þetta eru rauntölur, skipt í þessa tvo hópa sem hv. þingmaður vill vera láta að deili ekki kjörum þegar kemur að kolefnisgjaldi. En tölurnar sýna bara allt annað, það er nákvæmlega sama staða.

Ég ætlaði ekki að dvelja allt of lengi við kolefnisgjöldin. Mig langaði aðeins að nefna annað áhugamál mitt sem eru sóknargjöldin. Hér fór hv. þingmaður yfir forsögu sóknargjalda og það þegar þau voru lögð af sem sjálfstæður tekjustofn 1998, þegar þau voru felld inn í óskiptan tekjuskatt. Frá þeim tíma hefur ekki verið hægt að tala um að ríkið innheimti félagsgjöld þannig að allt þetta tal um svik ríkisins eða þjófnað — var það ekki orðið, herra forseti sem þingmaðurinn notaði, þjófkenndi hann ekki fjármálaráðherra í þessu máli? — finnst mér vægast sagt úr lausu lofti gripið og alltaf að verða fjær og fjær raunveruleikanum. Til dæmis heldur ríkið ekki neitt félagatal fyrir trúfélög eða lífsskoðunarfélög heldur skráir Þjóðskrá einfaldlega við hvern einstakling, hvert gjöld til skráðra trúfélaga eða lífsskoðunarfélaga skulu renna. (Forseti hringir.) Það er því enginn grundvöllur fyrir öllu þessu tali um að sóknargjöld séu svikin, vegna þess að sóknargjöld eru (Forseti hringir.) hreinlega bara ímyndun. Þau eru ekki til sem félagsgjöld og hafa ekki verið í 32 ár.