151. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2020.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2021.

5. mál
[20:05]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég er þeirrar skoðunar að bíða eigi með hækkun áfengisgjaldsins eins og annarra gjalda við þessar aðstæður en það á kannski ekki hvað síst við um þetta gjald vegna þess að það leggst nokkuð þungt á veitingabransann eins og hv. þingmaður nefnir. Einn af þáttunum sem litið er til þegar Ísland er skoðað sem ferðamannaland er verð á áfengi á veitingastöðum. Ég tel tvímælalaust tilefni til að bíða með þá hækkun eins og reyndar á öðrum sviðum. Nokkrir hv. þingmenn hafa bent á það hér í umræðunni að það sé ekki eitt af helstu áhersluatriðum þeirra sem starfa í veitingageiranum, sem er alveg rétt. Það þarf þá að fylgja sögunni að þessir aðilar hafa þó bent á að þetta myndi hjálpa. Þeir eru einfaldlega að benda á að meira þurfi að koma til, stærri aðgerðir til að aðstoða þessa grein atvinnulífsins við að komast í gegnum erfiðar aðstæður sem bitna alveg sérstaklega á ferðaþjónustu og veitingageiranum. Það dreifist út í aðrar greinar. Við sjáum t.d. áhrifin á landbúnaðinn af því að veitingastaðir séu lokaðir. Þarna vantar líka að mínu mati aukna skynsemi í nálgunina. Ég held að það væri betra fyrir veitingastaði, sem vita ekki hvort þeir mega vera opnir á morgun og mega t.d. bara taka við tíu manns, að fá bara skýr skilaboð um að þeim beri að loka og fá þá stuðning í samræmi við það.