151. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2020.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2021.

5. mál
[21:04]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er alveg áhugavert, sérstaklega af því að sóknargjöldin eru föst krónutala á hvern einstakling. Ég átta mig ekki alveg á því hvernig það jafnar aðstöðu, þegar allt kemur til alls, ef ákveðið lífsskoðunarfélag sem er staðsett einhvers staðar á landinu færi að innheimta sóknargjöld sín sjálft af félögum sínum á móti því að fá einmitt fasta krónutölu sóknargjalda fyrir hvern einstakling hvort eð er. Ég átta mig því ekki alveg á því hvernig það jafnar eitthvað út, alla vega þegar horft er á það þannig.

Við eigum í smávegis erfiðleikum eftir að hafa klórað okkur í gegnum þetta mál í fjárlaganefnd varðandi kirkjujarðasamkomulagið sem er hinn hlutinn af þessu öllu, öllu þessu bixi sem ríkisafskiptin af þessu eru. Við vitum ekki hvaða jarðir ríkið fékk afhentar til að standa við sinn hluta af kirkjujarðasamkomulaginu. Við vitum ekki hversu mikils virði jarðirnar voru á móti þeim fjármunum sem við greiðum úr almannasjóðum fyrir þær. Það er allt einhvern veginn ósýnilegt fyrir okkur sem eigum að fara með fjárveitingavaldið, að við stjórnum með svona yfirboði, að þessi sókn skuli bara fá 1.080 kr. fyrir hvern einstakling í sókninni en geti ekki bara ákveðið það sjálf. Mér finnst þetta bera vott um, eins og árið 1907 þegar kirkjujarðasamkomulagið var fyrst að byrja, að við séum enn þá í þessu kerfi sem ég held að haldi aftur af sóknum og lífsskoðunarfélögum þegar allt kemur til alls af því að við setjum þeim mörk sem þau geta ekki unnið sig út úr.