151. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2020.

breyting á ýmsum lögum um skatta og gjöld .

342. mál
[23:14]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. ráðherra hefur lagt hér fram áhugavert frumvarp sem fjallar um skattalega hvata fyrir lögaðila sem starfa að heill almennings. Þessir aðilar hafa lengi beðið eftir styrkari umgjörð fyrir sína starfsemi sem að öllum líkindum fæst með þeim breytingum sem hér eru lagðar til. Þessi starfsemi er tíunduð í 1. gr., þ.e. hverjir falla undir þessa skilgreiningu að vera starfsemi sem telst til almannaheilla. Þau eru fjölmörg en mig langar að drepa niður fæti við afmarkað atriði í III. kafla um breytingu á lögum um virðisaukaskatt og fjallar um einn þátt sem heyrir undir almannaheill, þ.e. íþróttastarf.

Nú er það svo að félagasamtök víða um landið eru að leitast við að bæta aðstöðu sína til íþrótta- og félagsstarfs. Ég nefni í þessu sambandi fjölnota hús, stundum eru þau nefnd knatthús, en það eru hús sem nýtast til afþreyingar fyrir bæði eldri og yngri. Dæmi eru um að reynt sé að koma þessum húsum upp í samstarfi sveitarfélaga og félagasamtaka, íþróttafélaga, og það kostað af þessum aðilum sameiginlega. Eftirgjöf af virðisaukaskatti getur ekki náð til verkefna af þessu tagi ef sveitarfélög koma nálægt því. Er það ekki rétt skilið?

Í 8. gr. er tekið á vinnu á byggingarstað, að hún skuli undanþegin að 60% hluta. Er það ekki rétt skilið líka að það getur aldrei orðið hærra hlutfall? Samkvæmt frumvarpinu má skilja að þetta sé einungis eftirgjöf af vinnuliðnum og ég spyr ráðherra og hann hefur raunar svarað því mjög ærlega og hefur gert góða grein fyrir sínu máli að þetta er bara vinnuliðurinn, þetta er ekki efnisliðurinn. Ég er töluvert upptekinn af því að horfa til lýðheilsusjónarmiða, heilsueflingar og jöfnunar á aðstöðumun fólks sem býr úti um landið. (Forseti hringir.) Það hefur ekki aðgang að þessum knatthúsum eða fjölnota húsum nema í litlum mæli. Er ekki ástæða til og telur ekki ráðherra möguleika til að ramma þetta inn með einhverjum hætti til þess að (Forseti hringir.) lítil sveitarfélög geti komið sér upp aðstöðu sem þessari? Keppnin er (Forseti hringir.) hörð í heimi íþróttanna.

(Forseti (BHar): Forseti minnir hv. þingmenn á að virða tímamörkin.)