151. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2020.

breyting á ýmsum lögum um skatta og gjöld .

342. mál
[23:19]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf) (andsvar):

Ég þakka hæstv. ráðherra svarið og bendi honum á að þessi yfirbyggðu hús hafa gert gæfumuninn í árangri okkar í íþróttum, ekki bara í knattspyrnu. Mér finnst það vera kannski deilan um keisarans skegg en það er kannski heldur billega sloppið að tala um hvort það séu sveitarfélögin eða félagasamtökin sem eigi að standa að þessu og hvort verið sé að aðstoða þau. Mér finnst þetta snúast um okkar dýrmæta auð sem býr í æskufólkinu og hvernig við ræktum og ávöxtum þann auð. En allt um það.

Mig langaði að drepa hér á annað atriði þessu tengt. Það er frumvarp um félagasamtök til almannaheilla sem lagt hefur verið fram endurtekið, síðast á síðasta þingi, og var vísað frá eða vísað til ríkisstjórnarinnar eftir 2. umr. Samfylkingin greiddi ekki atkvæði með þeirri tilhögun og einn stjórnarliða í efnahags- og viðskiptanefnd samþykkti þetta með þeim fyrirvara að frumvarpið kæmi fljótt aftur inn í þingið til samþykktar. Þetta er auðvitað heildstæður lagabálkur um félagasamtök og tíundað í hvívetna hvernig það skuli útfærast. Og ég spyr ráðherra: Hver er staða málsins? Hver er staða þessa frumvarps? Er ríkisstjórnin hætt við að koma fram með heildstæða löggjöf um félagasamtök til almannaheilla og ætlar ríkisstjórnin að láta þær breytingar duga sem kynntar eru í þessu frumvarpi? Er það skoðun ráðherra að heildarlöggjöf sé óþörf á þessu sviði eða mun þetta frumvarp kannski öðru fremur greiða götuna fyrir setningu heildarlaga?