151. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2020.

breyting á ýmsum lögum um skatta og gjöld .

342. mál
[23:26]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er stór spurning og auðvitað er mikilvægt að við tökumst á við hana í þessu frumvarpi þó að við skiljum eftir aðeins nánari útfærslu fyrir reglugerð. Við erum að fjalla um ástæður þess að við grípum til skattalegra ívilnana. Við erum t.d. að fara inn í tekjuskattslögin og eins og rakið er í greinargerð um hugtakið almannaheill má leiða af þessum tilgangi öllum að sú starfsemi sem er hér undir sé ekki unnin í ábataskyni fyrir þá sem að henni koma eða þannig að þeir sem að félagsstarfseminni standa séu með þann tilgang að hafa af henni persónulegan ávinning heldur renni ágóði af starfseminni raunverulega til þess að bæta samfélagið. Þar geta komið upp önnur álitamál, eins og það sem hv. þingmaður nefnir um hvort endurheimt á votlendi með því að moka ofan í skurði falli undir það eða önnur dæmi, eins og hann rakti í máli sínu.

Það sem við erum kannski fyrst og fremst að horfa til eru ekki hin ólíku hugðarefni fólks heldur það sem við erum óumdeilanlega sammála um og fellur undir hugtök eins og mannúðar- og líknarstarfsemi. Ég vona að ekki verði mjög mikill ágreiningur þarna. Æskulýðs- og menningarmálastarfsemi, þar með talið íþróttastarfsemi, eins og segir í 1. gr., kallar ekki á mjög djúpa og nánari greiningu. (Forseti hringir.) Ég held að það sé ekki til annað svar í sjálfu sér. Það getur komið að því að við séum á jaðri þess að geta orðið sammála um hvort einhver tiltekin starfsemi (Forseti hringir.) sem við ímyndum okkur falli undir ákvæðið.