151. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2020.

breyting á ýmsum lögum um skatta og gjöld .

342. mál
[23:33]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Við erum hér að fjalla um í 1. umr. frumvarp um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld sem snúa að skattalegum hvötum fyrir lögaðila sem starfa til almannaheilla. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra fyrir framsöguna, hann fór mjög vel yfir þær tillögur sem er að finna í þessu frumvarpi.

Ég ætlaði ekki að koma hér upp, virðulegur forseti, í löng ræðuhöld en ég held að það frumvarp sem við erum að fjalla um hér sé afar mikilvægt skref fyrir hið mikilvæga sjálfboðaliðastarf til almannaheilla í landinu. Það er viðurkennt að svo mikið hvílir á slíkri starfsemi. Í gegnum tíðina hafa komið fram á Alþingi fjölmörg þingmannamál sem hafa haft að geyma ýmsar af þeim tillögum sem birtast í þessu frumvarpi. Ég vil því rifja upp, af því að það er ekki eiginleg markmiðsgrein í þessum bandormi, verkefni starfshópsins sem hæstv. ráðherra skipaði og hann kom inn á í framsögu sinni. Þær tillögur sem er að finna í frumvarpi endurspegla ágætlega þessi markmið. Þess vegna ætla ég að fara stuttlega yfir þær áherslur sem lágu til grundvallar.

Í fyrsta lagi var verkefni starfshópsins að fara yfir skattalegt umhverfi þriðja geirans með það að markmiði að styrkja hið skattalega umhverfi sem hann býr við. Í öðru lagi að stuðla að samræmi við það sem þekkist t.d. í nágrannalöndum okkar. Það má finna skýrslur alveg aftur til ársins 2004 sem fjalla um þennan þátt, þ.e. samanburð á skattalegu umhverfi. Það kemur m.a. fram í skýrslu frá þeim tíma að íslensk góðgerðarfélög, eins og það var sett fram, búi að einhverju leyti við erfiðara skattumhverfi en sambærileg félög í samanburðarlöndunum. Í þriðja lagi að leggja fram á þeim grunni tillögur að breytingum á lögum sem gilda um skattlagningu þeirrar starfsemi sem fellur undir þriðja geirann eða menningarstarfsemi. Í fjórða lagi að þær tillögur til breytinga séu til þess fallnar að efla og styrkja það mikilvæga starf sem unnið er af þúsundum sjálfboðaliða um allt land.

Mér sýnist, virðulegi forseti, að þær tillögur sem við erum að horfa til hér og þær breytingar á ýmsum skattalögum sem við finnum í frumvarpinu, séu í samræmi við þessi markmið og þá skýrslu sem starfshópurinn skilaði. Ég vil þó koma inn á eitt atriði sem hæstv. ráðherra nefndi sem snýr að mannvirkjagerð. Þar hefur verið valin þekkt leið um endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu á byggingarstað og er í samræmi við gildandi bráðabirgðaákvæði um mótvægisaðgerðir, sem við samþykktum hér á Alþingi að vori vegna Covid-19, um 100% endurgreiðslu virðisaukaskatts, enda er lagt til hér að ákvæðið eins og það kemur fram í frumvarpinu muni ekki taka gildi fyrr en 1. janúar 2022. Hæstv. ráðherra mælti fyrir frumvarpi hér rétt áðan sem snýr að framlengingu þessa ákvæðis um 100% endurgreiðslu. Starfshópurinn lagði reyndar til endurgreiðslu á hluta útlagðs kostnaðar upp að ákveðnu hámarki að uppfylltum ítarlegum skilyrðum. Það skal þó viðurkennt að það myndi að líkindum kalla á flóknari umbúnað og jafnvel meira umfang en þá 2 milljarða, rúman 2,1 milljarð, sem fjármagnaðir eru í fjárlagafrumvarpi næsta árs.

Þá er 2. gr. frumvarpsins nýmæli sem snýr að því að einstaklingar geti eða þeim sé heimilt að draga frá skatttekjum sínum gjafir og framlög til lögaðila sem hafa með höndum starfsemi til almannaheilla. Ég trúi því, virðulegur forseti, að þetta nýmæli, þetta ákvæði, muni nýtast almannaheillageiranum afar vel. Þá vil ég vísa því til nefndarinnar að skoða vel tilhögun almannaheillaskrár. Það kom fram í andsvörum hv. þm. Guðjóns Brjánssonar og hæstv. ráðherra að hér hefur verið lagt fram nokkrum sinnum frumvarp um heildarlög um almannaheillafélög og ég held að það væri mjög til bóta að við næðum að klára það. Ég trúi því að ráðherrann muni leggja það fram. Því var vísað frá hér og sá sem hér stendur ber nokkra ábyrgð á því þar sem íþróttahreyfingin öll reyndist andvíg því að falla undir þessi lög þar sem hún hefur ástæður fyrir því að fella sig við alþjóðalöggjöf og -reglur og sérstök íþróttalög o.s.frv., ég ætla ekki að fara að rekja það mál allt. Verkefnið var sem sagt að ráðherrann tæki samtal við íþróttahreyfinguna og fyndi lausn á málinu og kæmi með það mál aftur inn í þingið, sem ég trúi að geti orðið. Þess vegna vísa ég því til nefndarinnar að skoða vel tilhögun almannaheillaskrár. Hún er mikilvæg forsenda þess að slíkir hvatar gangi eftir og þeir sem leggja til framlag geti nýtt sér heimildir sem lagðar eru til. Í frumvarpinu er vísað til ákvæða VII. kafla laga um skráningarskyldu félaga til almannaheilla með starfsemi yfir landamæri og að þau gildi eftir því sem við á. Þannig að það er alveg til í myndinni að það frumvarp sem ég vísa til um heildarlög fyrir almannaheillageirann eigi ekki að vera hindrun endilega í að slík almannaheillaskrá verði til.

En ég vildi fyrst og fremst koma hér upp, virðulegi forseti, og þakka hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra fyrir að leiða málið í þennan farveg, skipa starfshóp sem að endingu leiðir til þess frumvarps sem við sjáum birtast hér. Það var frumkvæði sem leiðir kannski til þess, ef við náum að samþykkja frumvarpið, að taka mögulega stærri skref en hefur tekist áður. Það er um leið til eflingar almannaheillastarfi í landinu og viðurkenning, sem er kannski mikilvægast í þessu öllu saman, á því sjálfboðaliðastarfi og stuðningur við allt það starf sem almannaheillageirinn allur hvílir á.