151. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2020.

sóttvarnaráðstafanir með sérstakri áherslu á bólusetningar gegn Covid-19 - forgangsröðun og skipulag, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[12:31]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Herra forseti. Við lifum sögulega tíma sem taka heldur betur í. Þreytan í samfélaginu er orðin umtalsverð en við eygjum þó ljós í fjarska, sem er bóluefni og allar þjóðir búa sig undir bólusetningu af kappi. Sem dæmi hafa Danir gert samning við fimm fyrirtæki sem samanlagt tryggja 15 milljónum manna bólusetningu. Í Danmörku, Færeyjum og Grænlandi búa hins vegar samtals bara nálægt 6 milljónunum, en þetta gera Danir til að veðja á fleiri hesta, eins og þeir orða það, til að tryggja að þeir fái nóg bóluefni jafnvel þó að upp komi vandamál með að fá bóluefnið samþykkt eða þá að eitthvað annað óvænt komi upp.

Ráðherrann kom inn á hlutfallið sem við erum að glíma við, það virðist vera í lægri mörkum. Munu heilbrigðisyfirvöld á Íslandi tryggja svipað hlutfall og Danir? Eins og fram hefur komið hefur ráðherra lagt fram frumvarp um að ríkið greiði þeim sem verða fyrir tjóni af völdum bóluefnis gegn Covid-19, hvort sem tjónið megi rekja til eiginleika efnisins eða rangrar meðhöndlunar. En hvernig verður eftirliti með aukaverkunum háttað? Er einhver sérstök áhersla lögð á að fylgjast með þeim sem verða fyrir því hér á landi? Er eitthvert ferli til staðar ef slíkt kemur upp, líkt og kom upp t.d. í tengslum við svínaflensubólusetninguna þar sem dæmi voru um að fólk veiktist af drómasýki í kjölfarið?

Ýmislegt hefur heyrst varðandi útfærslu á framkvæmd bólusetningarinnar. Meðal annars hefur borgarstjórinn í Reykjavík nefnt í því samhengi að horfa megi til skipulags og framkvæmdar kosninga, sem tryggir að framkvæmdin verði í nærumhverfi fólks. Hvaða aðilar koma að samræmingu bólusetningar? Hvar mun hún fara fram? Hefur ráðherra eitthvert hugboð um hvenær bólusetning muni geta hafist og hversu langan tíma muni taka að bólusetja okkur öll eða þau sem það vilja? Verður hún gjaldfrjáls að öllu leyti eða koma einhver gjöld (Forseti hringir.) fyrir þetta? Að lokum: Verður fólk mótefnamælt fyrir bólusetningu? (Forseti hringir.) Og verða þeir sem eru með mótefni við veirunni líka bólusettir? Ég veit ekki hvort hæstv. ráðherra hefur upplýsingar um þetta á takteinum.