151. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2020.

sóttvarnarráðstafanir með sérstakri áherslu á bólusetningar gegn Covid-19 - forgangsröðun og skipulag, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[12:36]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir greinargóð svör. Við erum auðvitað stöðugt með hugann við velferð og líðan unga fólksins sem hefur margt hvert farið halloka í þessum faraldri. Í því sambandi hefur ákallið verið hátt hvað varðar íþróttaiðkun og hreyfingu og hafa fleiri hv. þingmenn haft orð á því hér í dag. Keppnisfólk í ýmsum greinum er eðlilega óþreyjufullt og telur að í ljósi reynslu og framkvæmdar í nágrannalöndunum nái sú leið sem Íslendingar hafa valið ekki nokkurri átt og staðhæfa að í þessum greinum sé smithættan hverfandi og ekki verjandi út frá mörgum forsendum að halda svo aftur af keppnisfólki. Þetta eru raddir innan úr þeirra hópi.

Ég spyr um viðhorf ráðherra. Þau hafa svo sem komið fram að nokkru leyti. Við hvaða rannsóknir eða gagnreyndu upplýsingar er stuðst þegar svo stífar skorður eru settar gagnvart skipulögðum íþróttaæfingum? Ég geri þarna skýran greinarmun á líkamsræktarstöðvum og t.d. körfubolta, handbolta eða knattspyrnu, ég tala nú ekki um frjálsar íþróttir.

Mig langar í lokin rétt að tæpa á allt öðru og það er hagur sveitarfélaganna. Nokkur sveitarfélög hafa orðið fyrir umtalsverðum kostnaði og tekjutapi vegna farsóttarinnar, sérstaklega þann tíma sem íbúar voru látnir sæta úrvinnslusóttkví. Það var tímabundin ráðstöfun meðan unnið var að smitrakningu, sem þýddi að aðeins einn aðili í einu á hverju heimili gat yfirgefið heimilið til að afla aðfanga. Verður að einhverju leyti komið til móts við sveitarfélög sem reyndi sérstaklega á í þessum efnum? Ég nefni sérstaklega í þessu sambandi Húnaþing vestra.