151. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2020.

staðfesting ríkisreiknings 2019 .

277. mál
[16:11]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Þegar þingið á að samþykkja fjármálaáætlun er samkvæmt lögum um opinber fjármál ákveðin krafa um að fjármálaáætlunin sé í samræmi við lög um opinber fjármál. Það er sett fram á þann hátt að það er einfaldlega fullyrt í þingsályktuninni að hún standist lög um opinber fjárlög. Það þýðir ekki að hún geri það. Og þegar þingið, meiri hlutinn, ýtir á takkann og segir: Já, þetta er í samræmi við lög um opinber fjármál, þá þýðir ekki að það sé satt. Og jú, jú, þó að frumvarpið, þessar tvær til þrjár línur, sé í samræmi við lög um opinber fjármál þýðir það ekki að efnið sem bjó til ríkisreikning 2019 hafi verið í samræmi við lög um opinber fjármál. Það er það sem ég er að gagnrýna, að tilurð fjárheimildanna, meðhöndlun þeirra, framsetning þeirra, var ekki í samræmi við lög um opinber fjármál. Þó að síðan sé eitthvert frumvarp sem segir: Þetta er alveg í samræmi við lög um fjármál, þá segi ég bara: Nei. Allt ferlið sem við vorum búin að ganga í gegnum frá því að frumvarpið var lagt fram 2018 hefur bara ekki verið í samræmi við lög, og þar af leiðandi er í raun ekkert af því sem kemur í framhaldinu það heldur. Í sambandi við Landspítala – háskólasjúkrahús, sem ég hef nefnt hérna, kemur einmitt vel fram í frumvarpinu að ekki sé gerð grein fyrir því hvers vegna það var svona mikill hallarekstur 2019. Það er bara sagt að það sé engin útskýring, sem á annars að vera. Það er ekki í samræmi við lög um opinber fjármál. Samt er sagt: Þetta er í fínu lagi, sem gengur bara ekki upp, hvorugt.