151. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2020.

greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar á tímum kórónuveirufaraldurs .

362. mál
[16:30]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar á tímum kórónuveirufaraldurs. Frumvarpið er unnið í samráði ráðuneyta, íþróttahreyfingarinnar og Vinnumálastofnunar og er það liður í aðgerðum ríkisstjórnarinnar til að draga úr tjóni íþróttafélaga vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar þannig að félögin geti hafið óbreytta starfsemi að nýju þegar faraldrinum lýkur.

Frumvarpinu er ætlað að gilda um greiðslur vegna launakostnaðar íþróttafélaga sem er gert að fella tímabundið niður starfsemi, að hluta eða öllu leyti, á tímabilinu frá 1. október 2020 til og með 30. júní 2021 vegna opinberra sóttvarnaráðstafana í tengslum við heimsfaraldur kórónuveiru.

Gert er ráð fyrir að frumvarpið nái til lögaðila innan vébanda Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, þar með taldar einstakar deildir sem starfa á vegum fyrrnefndra lögaðila. Er þannig lagt til að Vinnumálastofnun verði heimilt að greiða íþróttafélagi launakostnað á því tímabili sem því hefur verið gert að fella niður starfsemi að uppfylltum nánar tilteknum skilyrðum. Þó er gert ráð fyrir að starfstengd fríðindi og hlunnindi séu undanskilin og falli því ekki undir launakostnað íþróttafélaga í skilningi frumvarpsins.

Gert er ráð fyrir að fjárhæðir greiðslna verði jafn háar launagreiðslum til launamanna á því tímabili sem íþróttafélagi hefur verið gert að fella niður starfsemi, þó að hámarki 500.000 kr. á mánuði fyrir hvern launamann, þar sem miðað er við almanaksmánuð.

Virðulegi forseti. Ég vil sérstaklega vekja athygli á því að frumvarpið, eins og það er lagt fram hér, gildir um launagreiðslur íþróttafélaga til launamanna en ekki um greiðslur til verktaka vegna vinnu í þágu íþróttafélaga. Við útfærslu málsins var þetta skoðað nokkuð og niðurstaðan varð sú að það sem lyti að verktöku og því tengdu myndi fara í gegnum sérstakan styrktarfarveg sem mennta- og menningarmálaráðuneytið mun halda utan um og var það sérstaklega gert að beiðni fjármálaráðuneytisins. Ég held að það sé rétt að koma þessu atriði að vegna þess að ég veit að um það verður rætt og það er fullkomlega eðlilegt að nefndin taki þetta líka til ákveðinnar skoðunar. Það er gert ráð fyrir að upphæðin til þess þáttar sem lýtur að verktöku sé u.þ.b. sambærileg þeirri upphæð sem áætlað er að þetta frumvarp kosti. Hvað þetta snertir er rétt að geta þess að rökstuðningurinn á bak við þetta er m.a. sá að íþróttahreyfingin gerir ákveðnar gæðakröfur til íþróttafélaga við ráðningu starfsmanna og býður sjálf upp á tiltekið viðurkenningarkerfi í tengslum við fyrirmyndarfélag Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands. Hefur íþróttahreyfingin þannig hvatt til þess að íþróttafélög ráði frekar til sín launamenn með beinni ráðningu í stað þess að gera samninga við verktaka. Í því sambandi hefur íþróttahreyfingin líka lagt ríka áherslu á gegnsæi við dreifingu fjármuna gagnvart yngri flokkum og gagnvart jafnrétti kynjanna. Og það er ástæða til að hvetja til þess hér, tengt þessu og bara almennt þeim stuðningi sem verið er að ráðast í við íþróttafélögin, að hafa þetta hugfast á þessum tímum vegna þess að þegar þrengir að þá er mikilvægt að halda öllu íþróttastarfi gangandi og hvetja sérstaklega til þess að horfa til yngri flokka og til jafnréttissjónarmiða og gæta að því þegar tekist er á við þær þrengingar sem faraldurinn hefur í för með sér.

Virðulegur forseti. Það er ljóst að heimsfaraldur kórónuveirunnar hefur haft mikil áhrif á starfsemi íþróttafélaga og standa félögin frammi fyrir miklum áskorunum vegna faraldursins. Ég hef verið upplýstur um að íþróttafélög hafi orðið vör við aukið brotthvarf úr barna- og unglingastarfi í kjölfar heimsfaraldursins og það er mjög miður. Það er því mikilvægt að stjórnvöld stígi inn og tryggi eins og frekast er unnt möguleika allra barna og ungmenna til þess að taka þátt í skipulögðu íþróttastarfi að nýju þegar faraldrinum lýkur og hægt verður að hefja starfsemi að nýju af fullum krafti.

Það skiptir miklu máli að við sem samfélag og við sem förum með almannafé viðurkennum að það er gríðarlega mikilvægt að styðja almennt fjárhagslega við íþróttafélögin á þessum erfiðu tímum. En ég held að það sé óþarfi að fara mörgum orðum um mikilvægi íþróttastarfs vegna þess að þar tala staðreyndirnar auðvitað sínu máli. Í því ljósi held ég að það sé mjög mikilvægt að þetta frumvarp verði samþykkt hér á Alþingi sem allra fyrst en ég hef þá trú að frumvarpið muni stuðla að því, samhliða öðrum aðgerðum, að sem minnstar raskanir verði á íþróttastarfi á Íslandi vegna heimsfaraldursins þegar til lengri tíma er litið.

Síðan vil ég bara segja að þetta frumvarp er eðli máls samkvæmt unnið í samstarfi við fleiri ráðuneyti og við íþróttahreyfinguna og eðli máls samkvæmt eru atriði sem hafa komið upp og kunna að koma upp í tengslum við það sem mikilvægt verður fyrir nefndina að skoða sérstaklega. Ég heiti góðu samstarfi við nefndina í því vegna þess að ég held að almennt sjái betur augu en auga og ég hlakka til þess samstarfs.

Að lokinni þeirri umræðu sem hér mun fara fram legg ég til að málinu verði vísað til hv. velferðarnefndar Alþingis.