151. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2020.

greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar á tímum kórónuveirufaraldurs .

362. mál
[17:20]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Mig langar að eiga smásamræður við hv. þingmann sem formann velferðarnefndar, þar sem ég sit sem áheyrnarfulltrúi, en sú nefnd mun fá þetta mál til meðferðar. Ég velti því fyrir mér hvort hv. þingmaður sjái fyrir sér að við vinnslu málsins hafi nefndin svigrúm til að fara ofan í það atriði sem við höfum báðar, ég og hv. þingmaður, nefnt sérstaklega og lýtur að þeim greinarmun sem gerður er á aðstoðinni við launamenn annars vegar og verktaka hins vegar.

Hæstv. ráðherra kom inn á það áðan, útskýrði hver staðan hefði verið, að þetta hafi upphaflega átt að vera í frumvarpinu en það hafi breyst. Fjármálaráðuneytið tengir þetta við átak sem við vitum að hefur staðið yfir í einhvern tíma, þ.e. að færa starfsfólk íþróttafélaga frá því að vera verktakar yfir í að vera launþegar. Við getum síðan haft ákveðnar skoðanir á því hversu vel það virkar endilega. Það þarf ekki alltaf að vera rétta leiðin. Verktakar eru ekkert skammaryrði. Stundum er alveg full ástæða fyrir því að verk eru unnin í verktöku.

Það sem ég hef áhyggjur af, gangi þetta mál sinn veg, er að ekki er enn útséð hvernig gengið verður frá málum varðandi verktaka. Við vitum líka að íþróttafélög eru mismunandi. Sum eru komin langt á veg með að breyta hlutunum og eru með fáa verktaka, önnur eru kannski með flesta starfsmenn í verktöku og fyrir því geta legið margar ástæður. Það eina sem þessi íþróttafélög eiga sameiginlegt er að vera í mjög alvarlegum fjárhagsvanda. Þetta getur einfaldlega haft neikvæð áhrif á jafnræði þeirra á milli og þar með á jafnræði íþróttaiðkenda. (Forseti hringir.) Er þetta eitthvað sem hv. formaður velferðarnefndar telur eðlilegt að við skoðum nánar?