151. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2020.

greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar á tímum kórónuveirufaraldurs .

362. mál
[18:09]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Ég hef misskilið ræðu ráðherrans. Mér fannst hann segja að horft væri til þess að setja verktakakostnað íþróttafélaganna af verktakagreiðslum í annað frumvarp. Núna kom hæstv. ráðherra inn á að horft væri til þess að það yrði sjóður sem menntamálaráðherra hefði þá forgöngu um að úthluta úr. Það er kannski spurning af því nú liggja fyrir bæði fjárlög og fjármálaáætlun hvort þessum peningum sé fyrir komið einhvers staðar, af því ég veit að hæstv. ráðherra hefur mikinn áhuga á framgöngu og stöðu íþróttahreyfingarinnar og íþróttafélaga. Veit hann til þess að þeim peningi sé fyrir komið einhvers staðar í fjárlögum eða í fjármálaáætlun þannig að hæstv. menntamálaráðherra geti tekið fljótt til hendinni við að styðja íþróttafélögin með þeim hætti að til jafns sé gætt gagnvart því sem hér er gert í launagreiðslunum?

Þetta er seinna andsvar mitt og því vil ég nefna, af því að hæstv. ráðherra kom inn á að menn hefðu verið að hrakyrðast hér í umræðunni í garð fjármálaráðherra, að það gerði ég ekki. Það má vel vera að einhver sem ég missti af ræðu hjá hafi gert það, en það kom ekki frá mér.