151. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2020.

búvörulög.

376. mál
[18:48]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Tímans vegna gat hann ekki svarað fyrirspurn minni varðandi það hvort einhverjar viðræður hefðu átt sér stað við Evrópusambandið. Ég bið hæstv. ráðherra að koma aðeins inn á það atriði að falla frá útboði, að ekki skuli litið á það sem samningsbrot.

Hæstv. ráðherra hefur talað fyrir því hér að mæta þurfi landbúnaðinum með öðrum hætti. Ég fagna því að sjálfsögðu en mér finnst stjórnvöld hins vegar hafa verið allt of svifasein í þessu. Það hefur nú verið ljóst síðan í apríl í hvað stefndi hvað landbúnaðinn varðar vegna veirufaraldursins. Hæstv. ráðherra hefur nefnt það hér að skoða aðrar leiðir. Nú sé ég þess hvergi merki í fjárlagafrumvarpinu að mæta eigi bændum með einhvers konar fjárstuðningi. Ég vil nefna í því sambandi að nú er Evrópusambandið einmitt að fara þá leið að veita bændum sérstaka fjárstyrki, allt að 100.000 evrum eða um 16 millj. kr. Síðan gefst bændum í Evrópusambandinu kostur á að taka hagstæð lán. (Forseti hringir.) Evrópusambandið er að mæta þessum erfiðu aðstæðum. Ég bið hæstv. ráðherra að fara yfir það með hvaða hætti hann hefur hugsað sér að gera það vegna þess að þess sjást ekki merki í fjárlögum.