151. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2020.

búvörulög.

376. mál
[19:01]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Öðruvísi mér áður brá. Mig minnir að fjölmargir þingmenn Miðflokksins hafi komið hingað upp og talað um undirverðlagningu á erlendri matvöru sem væri í raun skaðleg fyrir innlenda framleiðslu. Ég býst við að allar athuganir myndu sýna að samkeppni af þessum toga hefur leitt til lægra verðs á einstökum vörum. Ég held hins vegar að það séu líka svo margir aðrir þættir sem ýta undir það að lítil þjóð eins og við höfum gott af góðri og mikilli samkeppni erlendis frá. Það þekkjum við úr öðrum atvinnugreinum. Upp úr 1970 eða undir 1970, þegar var verið að opna ýmsar atvinnugreinar, voru margir framleiðendur sem fengu högg í upphafi en ég held að það hafi samt sem áður verið til bóta fyrir íslenskt samfélag.

Það kemur hv. þingmanni ekki á óvart að við leggjumst gegn þessu frumvarpi. Það er gott, en að það sé vegna þess að við séum eitthvað sérstaklega á móti landbúnaði er af og frá. Ég er talsmaður þess að við styðjum íslenskan landbúnað eins vel og við getum. Ég hef ekki talað fyrir því að við drögum úr þeim fjárhæðum sem við verjum til íslensks landbúnaðar. Ég vil hins vegar gera það með öðrum hætti en hefur verið gert. Ég vil ekki hvetja til framleiðslu á vöru sem í rauninni þarf að borga með þegar hún er seld. Ég vil hvetja til þess að þannig sé staðið að íslenskum landbúnaði að bændur hafi betri laun en þeir hafa. Landbúnaður skiptir miklu máli út frá menningarlegu sjónarmiði til að halda landinu í byggð og við getum framleitt umhverfisvæna, góða og holla vöru. En til þess þurfum við að stunda meiri vöruþróun en okkur hefur auðnast.