151. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2020.

fjölmiðlar.

367. mál
[19:57]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Já, það er einmitt gríðarlega mikilvægt að huga að því alþjóðlega umhverfi sem við erum í. Við sjáum það ef við förum inn á þessar stóru efnisveitur að þar eru auglýsingar frá íslenskum aðilum. Það er þróun sem hefur ekki bara átt sér stað á Íslandi heldur einnig annars staðar. Ég nefni sem dæmi að Frakkar, og hvort það voru Spánverjar líka, hafa tekið ríkisfjölmiðil sinn af auglýsingamarkaði. Menn bjuggust jafnvel við því að einkareknu fjölmiðlarnir myndu koma og auglýsingarnar aukast hjá þeim, en eitt af því sem gerðist, og þetta var fyrir nokkrum árum, var að auglýsingarnar fóru í auknum mæli til stóru erlendu efnisveitnanna. Þess vegna hafa Evrópusambandið og fleiri viljað taka höndum saman og skattleggja þessar stóru erlendu efnisveitur þannig að eitthvað komi inn og skili sér aftur til viðkomandi ríkja. Við erum að sjálfsögðu í samstarfi við fjármála- og efnahagsráðuneytið og það er í samstarfi við Efnahags- og framfarastofnunina um að ná utan um það því þarna er leki. Þarna fara auglýsingatekjur til þessara aðila. Að mínu mati er þetta eitt stærsta viðfangsefnið. Og af hverju tala ég fyrir þessu fjölmiðlafrumvarpi og því að styrkja rekstrarumgjörð fjölmiðla? Það er líka vegna þess að hér erum við ekki svo mörg sem tölum þetta fagra tungumál okkar. Eitt af því sem við sjáum er að ungmennin okkar eru mikið á þessum erlendu efnisveitum, aðgengi þeirra að ensku hefur aldrei verið meira og ekki aðeins þegar þau fara að læra ensku heldur eru þau komin með enskuna beint fyrir framan sig á máltökualdri. Þess vegna þurfum við að gera allt sem við mögulega getum hér inni á þingi til að styðja við tungumálið okkar. (Forseti hringir.) Ég kem kannski betur inn á það í síðara svari.