151. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2020.

fjölmiðlar.

367. mál
[20:01]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er þessu hjartanlega sammála og mig langar að halda aðeins áfram með þann þráð sem ég var með í fyrra andsvari mínu. Það tengist því að íslenskur orðaforði barnanna okkar, eða unga fólksins, er ekki eins ríkulegur og hann var vegna þess að aðgengi að efni hjá enskum efnisveitum er svo greitt. Það getur verið mjög jákvætt en við þurfum þá líka að efla íslenskuna. Þessi ríkisstjórn fór í það að veita stuðning, endurgreiðslu, fyrir bókaútgáfu. Og hvað hefur gerst? Útgáfa barna- og ungmennabókmennta hefur aukist um 47%. Það eru frábær tíðindi vegna þess að við þurfum að hafa fjölbreytt úrval. Eitt af því sem ég vil meina að sé að gerast varðandi lesskilning er að aðgengi að áhugaverðu efni á íslensku er takmarkaðra en að áhugaverðu efni á ensku og þess vegna hafa drengirnir og stúlkurnar okkar jafnvel ekki eins mikinn áhuga á íslenskum viðfangsefnum. Þess vegna þurfum við, stjórnvöld og einkaaðilar og allir, að koma að þessu. Ætlum við að láta íslenskuna þróast og lifa? Þetta skiptir öllu máli.

Við tökum líka eftir því þegar við rýnum lestur á blöðum að hann hefur minnkað og unga fólkið er á netinu. Við verðum að hafa öfluga fjölmiðla, sama hvað þeir eru að gera, svo lengi sem þeir fjalla um málefni líðandi stundar á íslensku. Þannig náum við því fram sem við viljum. Og það er þannig að ef þú ert með ungan námsmann, sem er mjög góður í íslensku og ensku, eru honum eða henni allir vegir færir.