151. löggjafarþing — 32. fundur,  7. des. 2020.

umhverfismál.

[15:30]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka ráðherra svarið. Það er gott að hann er bjartsýnn en við höfum áhyggjur af því að árangur sjáist ekki. Hann er ekki merkjanlegur. Hvenær fáum við að sjá árangur?

Ég leyfi mér að spyrja: Hvað um afstöðu ráðherra og aðgerðir til að skrá og reikna kolefnisspor Íslendinga, að því sé miðlað til okkar og vakin athygli á því mikilvæga atriði, að viðurkenna og upplýsa um almennt umhverfisspor? Er það ekki gott skref til að skapa hvata til að draga úr neyslu? Hvaða plön hefur ráðherra um það?

Einn afmarkaður þáttur þessa sama efnis er flokkun úrgangs og meðhöndlun á landsvísu en við erum grátlega skammt komin í hringrásarferlinu, enn föst í þessari línulegu hugsun: Kaupa, nota, kasta. Hvað er að gerast í því, virðulegur ráðherra? Sveitarfélög úti um land eru mörg í basli, ýmist með urðun eða brennslu. Er enn ekki til heildstætt yfirlit um það hvernig sveitarfélög ganga fram að þessu leyti? Þarf ekki að samhæfa flokkun úrgangs og meðhöndla á landsvísu og efla þessi tengsl, uppvísa samhengið, valdefla almenning? Hvað er ráðherra að gera í þessu efni?