151. löggjafarþing — 32. fundur,  7. des. 2020.

ráðstafanir til að draga úr notkun pálmaolíu á Íslandi.

112. mál
[16:08]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta er alláhugaverð þingsályktunartillaga sem hér er til umræðu. Eins og fram kemur í tillögunni sjálfri er þetta, verð ég að segja, allsvakaleg lesning um áhrif pálmaolíu í eldsneyti. Mig langar að spyrja hv. framsögumann nefndarálits út í nokkur atriði í ljósi þess að ekki er langt síðan þeir flokkar sem flutningsmenn þessarar þingsályktunartillögu tilheyra stóðu fyrir lagabreytingu hér sem kveður á um skyldu til að blanda lífeldsneyti í allt eldsneyti. Lífeldsneyti er, eins og menn þekkja, einmitt unnið úr pálmum og alls kyns matjurtum, svo sem maís, soja og repju.

Hér er sem sagt upplýst um það að þetta er hið mesta skaðræði fyrir umhverfið í margvíslegu tilliti. Mig langar að spyrja hv. framsögumann hvort ekki hafi komið til tals, bæði hjá flutningsmönnum þessarar tillögu og þá ekki síður við meðferð málsins í þingnefnd, að ganga aðeins lengra og velta því upp hvort ekki væri full ástæða til að breyta lögum um skyldu til íblöndunar í eldsneyti eins og þau eru núna í stað þess að ganga bara hálft skrefið. Staðreyndirnar tala sínu máli eins og fram kemur í þessari þingsályktunartillögu. Eins og svo oft er þegar menn hafa góðan ásetning þá sjást menn ekki fyrir og niðurstaðan hefur oft óæskilegar, neikvæðar afleiðingar.