151. löggjafarþing — 32. fundur,  7. des. 2020.

ráðstafanir til að draga úr notkun pálmaolíu á Íslandi.

112. mál
[16:32]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Okkur er vandi á höndum því að hv. þingmaður misskilur fullkomlega náttúruna. Þessi íblöndun, hvort sem það er alkóhól eða olía — auðvitað var hugmyndin sú og hefur alltaf verið að sú olía komi ekki úr matvörunni sjálfri heldur öllu hratinu sem verður til. Menn vita hvernig maís lítur út, bæði stönglarnir og jurtin sjálf, miklu meira en kornið sjálft. Sama gildir um sykurreyr. Sama gildir um sumt af pálmaolíunni og svo er hægt að tala um alkóhól líka. Þetta er gert til að minnka hlut jarðefnaeldsneytis. Og af hverju er það? Það er jú munurinn á því að ná í eldsneyti úr kolefnishringrás jarðar á yfirborðinu, þ.e. að nota jurtir sem binda kolefni til að brenna þeim, skulum við segja. Við skulum taka við, bara venjulegan við. Það er ekki kolefnisaukandi í andrúmsloftinu að brenna við vegna þess að trén binda það aftur. Þess vegna er algjör grundvallarmunur á því að nota einhvers konar olíu sem er framleidd úr jurtum eða dæla olíu upp úr jörðinni sem hefur legið þar í milljónir ára. Það er það sem framkallar hlýnun jarðar, ekki kolefnishringrásin sjálf, sem er 60 milljónir tonna. Þannig að þingmaðurinn er algerlega úti að aka þegar hún kemur hér upp og fer að agnúast út í þetta mál, vegna þess að þetta gengur út á það að minnka breytingu skóga jarðar úr frumskógum í pálmaskóga, sem eru notaðir í matarolíu og í brennsluolíu. Ef þingmaður skilur það sem ég er að segja, að við erum að tappa okkur inn í eðlilega kolefnishringrás jarðar en ekki jarðefnaeldsneyti með þessari þingsályktunartillögu, þá er allt í lagi.