151. löggjafarþing — 32. fundur,  7. des. 2020.

ráðstafanir til að draga úr notkun pálmaolíu á Íslandi.

112. mál
[16:46]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég get sagt að ég sé bara í öllum meginatriðum sammála því sem þingmaðurinn minntist á hér. Hitt atriðið sem mig langaði að nefna er það sem þingmaður kom inn á varðandi þau siðferðislegu álitaefni sem koma til að mynda upp í tengslum við framboð á matvælum, þróun verðlags, skattalega hvata og fleira slíkt. Sömuleiðis hvernig það virkar á ólíka vegu í hinum vestræna heimi, hinum betur stæða hluta veraldarinnar, samanborið við þróunarlönd. Þetta eru sjónarmið sem koma upp mjög reglulega. Það blasir við að þegar matvælaskortur er á einum stað, að hluta til knúinn áfram af því að verð er beinlínis hærra fyrir vöruna fyrir þá bændur sem ræktunina stunda þegar varan er sett til eldsneytisframleiðslu í stað þess að hún sé nýtt til matar, þá hljótum við að hafa stillt kerfið af með röngum hætti, ef það eru hvatarnir sem ýta okkur í átt að meiri matarskorti þar sem það á við. Og það sé einhvern veginn á þeim nótum að hvatarnir séu allir rangir og afleiðingin verst á þeim svæðum sem hafa minnst svigrúm til að blæða peningum í óþarfa, ef svo má segja, eða nálgunin nái ekki þeim markmiðum sem ætlunin er að ná fram.