151. löggjafarþing — 33. fundur,  8. des. 2020.

svör við fyrirspurnum.

[13:37]
Horfa

Forseti (Steingrímur J. Sigfússon):

Forseti hefur hlýtt á hvað hv. þingmenn segja en vill í fyrsta lagi taka fram fyrir sitt leyti að það hefur skammur tími gefist til að skoða þessi svör eftir að þau bárust í gær og forseti vill þar af leiðandi segja sem minnst fyrr en hann hefur haft tök á því að athuga málin. Fæst orð hafa minnsta ábyrgð í þessum efnum, m.a. vegna þess að ein leið til að túlka þessi svör er að skilja þau sem gagnrýni á forseta fyrir að leyfa fyrirspurnirnar og að sjálfsögðu tekur forseti það alvarlega ef slíkur skilningur er lagður í málin. Á hinn bóginn er jafn ljóst að hæstv. ráðherrar ráða sínum svörum, yfir því hefur forseti ekki boðvald, og hæstv. ráðherrar bera pólitíska ábyrgð á sínum svörum. Forseti beinir því til hv. þingmanna að muna það og hafa það í huga. En vegna þeirra aðstæðna sem ég hef reifað og þess hve skammur tími hefur gefist til að skoða málin treysti forseti sér ekki til að segja meira á þessu stigi, en athygli hans hefur verið vakin á málinu.