151. löggjafarþing — 33. fundur,  8. des. 2020.

Hálendisþjóðgarður.

369. mál
[15:40]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vissulega gæti ýmiss konar jákvæð þróun orðið með miðhálendisþjóðgarði. Með það í huga langar mig samt að spyrja um þörfina fyrir hann. Hvað myndi gerast án miðhálendisþjóðgarðs? Hvernig yrði þróunin á hálendissvæðinu án hans? Hvernig verður hún betri með honum? Í þeim athugasemdum sem maður hefur séð um þetta mál, og Píratar eru annars með samþykkta stefnu um að koma á miðhálendisþjóðgarði þannig að ég kem þaðan að þessu máli, birtast áhyggjurnar sem fólk hefur og það vill fá svör við, af því það gerir málið einfaldlega betra. Hvernig yrðu aðstæðurnar án miðhálendisþjóðgarðs? Hvernig mun miðhálendisþjóðgarður leysa þau vandamál sem þar verða til staðar?