151. löggjafarþing — 33. fundur,  8. des. 2020.

Hálendisþjóðgarður.

369. mál
[15:59]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður spyr um samspil hálendisþjóðgarðsins og rammaáætlunar. Það er með þeim hætti að séu einhverjir virkjunarkostir sem enda í nýtingarflokki þriðja áfanga samkvæmt frumvarpinu þá er heimilt að ráðast í þá inni á þessu svæði. Þeir verða þá á svokölluðu jaðarsvæði líkt og þau svæði sem nú þegar eru nýtt til orkunýtingar. Ef þau eru í biðflokki má rammaáætlun skoða þau aftur og lítur til þeirrar aðferðafræði sem hún notar auk ákveðinna atriða sem nefnd eru í frumvarpinu að auki. Aðrar nýjar hugmyndir sem ekki hafa komið fram, þ.e. í þeim rammaáætlunum sem nú þegar hafa verið lagðar fram, kæmu þá ekki til greina nema til sjálfsþurftar í þjóðgarðinum. Það væru þá minni virkjanir sem væru til að nýta á svæðinu sjálfu.