151. löggjafarþing — 33. fundur,  8. des. 2020.

Hálendisþjóðgarður.

369. mál
[16:00]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum frumvarp til laga um Hálendisþjóðgarð. Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur farið yfir frumvarp um Hálendisþjóðgarð á Íslandi og það fer ekki á milli mála að hann brennur mjög fyrir sínu málefni. Nú þegar fer fram fjölbreytt starfsemi á vegum ólíkra hópa á þessu víðfeðma svæði en til stendur að það nái yfir 30% af landsvæði Íslands en nú þegar er u.þ.b. helmingur þess þegar friðlýstur eða um 15%. Öll sú starfsemi er í höndum fólks sem þykir vænt um hálendið, náttúru þess og margir bændur hafa t.d. alist upp í faðmi þessa lands sem er vagga þeirra og lífsbjörg og á sér langa sögu. Hálendið, skipulag þess og nýting, er því mikilvægt fyrir sjálfbærni landsins, til verðmætasköpunar, afþreyingar og útivistar. Landið okkar er í góðum höndum í dag. Það verður ekki í fljótu bragði séð að því sé einhver sérstök hætta búin ef frumvarp þetta nær ekki fram að ganga að öllu leyti, því að það er sameiginlegt áhugamál okkar allra að gæta vel að landinu.

Einstaklingsframtakið hefur árum og árhundruðum saman haslað sér völl á hálendinu með því að bændur hafa nýtt það til beitar og búdrýginda. Sjálfbær náttúruleg sauðfjárrækt er bændum í blóð borin og þeir þekkja landið eins og lófann á sér og enginn hefur hugað betur að velferð landsins en bændur. Einstaklingsframtak og náttúruvernd er samspil sem hefur reynst vel og við eigum að halda áfram að nýta okkur það öllum til góðs. Ég tek því undir þær áherslur sem koma fram í áliti þverfaglegu nefndarinnar sem fjallaði um málið, að hefðbundnar nytjar geti þróast með eðlilegum hætti á hálendinu.

Virðulegi forseti. Ég tek undir áhyggjur sveitarfélaga eins og Bláskógabyggðar um nauðsyn þess að skipulag sveitarfélagsins fái að haldast óbreytt í þeirra höndum. Í áliti sem ég hef undir höndum segir, með leyfi forseta:

„Aðalskipulag sem er í gildi myndi haldast óbreytt en þegar það svo rennur úr gildi og sveitarfélögin fara að vinna í nýrri skipulagsgerð þá þurfa þau að taka mið af stjórnunar- og verndaráætlun þjóðgarðsins. Þær áætlanir eru unnar og samþykktar í umdæmisráði og stjórn garðsins. Með þessu formi er verið að setja skipulagsvald í hendur á félagasamtökum.“

Áfram segir fulltrúi Bláskógabyggðar:

„Með því að færa skipulagsmál frá lýðræðislega kjörnum fulltrúum og flytja til félagasamtaka og embættismanna er verið að gera lítið úr störfum sveitarstjórna á landsbyggðinni. Það er verið að gera lítið úr úrslitum lýðræðislegra kosninga í sveitum landsins. Fólkið kaus þá aðila sem í sveitarstjórn sitja til að gæta hagsmuna sinna, ekki fulltrúa félagasamtaka.“

Ég tek undir með því sveitarstjórnarfólki sem heldur því fram að samtalinu við sveitarstjórnir og sveitarfélögin vegna stjórnsýslu hálendisþjóðgarðs sé ekki lokið.

Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að með stofnun þjóðgarðs skapist tækifæri til þess að ná utan um stjórnun og marka stefnu með markvissum og heildstæðum hætti. Þetta er allt til staðar í núgildandi lögum; skipulagslög, þjóðlendulög og landsskipulagsstefna ná utan um þessa þætti og sveitarfélögin vinna eftir þessum lögum. Það er því eðlilegt að spurt sé hvað það sé við núverandi fyrirkomulag sem kallar á slíkar breytingar. — Klukkan er eitthvað að hringja á mig.

(Forseti (BLG): Forseti biðst afsökunar, hann rak sig í einhvern takka og endurstillti eitthvað.)

Virðulegur forseti. Það er því eðlilegt að spurt sé: Hvaða er það við núverandi fyrirkomulag sem kallar á svona stóra lagabreytingu? Sunnlensk sveitarfélög vinna nú í sameiningu að svæðaskipulagi fyrir suðurhálendið og áætlað er að sú vinna taki um fjögur ár. Sveitarfélögin telja það mun skynsamlegri leið að vinna skipulagið og vernda svæði á þennan hátt og á þessum hraða þar sem vandað er til verka og málin vel ígrunduð.

Eftir þessa umræðu fer málið til nefndar þar sem það mun augljóslega taka einhverjum breytingum og vonandi verður þeim fyrirvörum sem við Sjálfstæðismenn höfum við þetta mál svarað, sem er eðlilegt í jafn stóru máli og hér er flutt. Ég er einn þeirra sem telja að með þessu frumvarpi sé stigið of stórt skref í einu til að stofna hálendisþjóðgarð sem tekur yfir svo stóran hluta landsins. Nú þegar eru fyrir þjóðgarðurinn á Þingvöllum, Vatnajökulsþjóðgarður, þjóðgarðurinn Snæfellsjökull og væntanlegur er þjóðgarður á Vestfjörðum og síðan eru tugir friðlýstra verndarsvæða á landinu. Við höfum heyrt um fjárhagsvanda og stjórnunarvanda sem birst hefur í fjölmiðlum í síðustu viku og þar hafa komið fram stórar tölur um framúrkeyrslu af áður óþekktum stærðargráðum. Það eru margir sem hræðast þessa aðkomu og fjármögnun nýs hálendisþjóðgarðs þarf að koma til umræðu enda er umræðunni ekki lokið, finnst mér og mörgum sem ég heyri í. Við þurfum að ná betri sátt við sveitarfélögin áður en við getum lokið þessu máli, það þarf að ræða fjármögnun og fyrirkomulag atvinnulífs í þjóðgarðinum sem er algerlega óskrifað blað og setur allan rekstur og áætlanagerð fyrirtækjanna í óásættanlega óvissu. Orkuframleiðsla og flutningur orkunnar og ferðaþjónustan verða að hafa skýran ramma áður en við lokum þessu máli og setjum völdin í hendur félagasamtaka sem enginn hefur kosið til að fara með lífæð samfélaganna í sveitum landsins. Það er því góð hugmynd sem varpað hefur fram af fólkinu sem málið brennur mest á: Byrjum á því að sameina þjóðgarðana og friðlýst verndarsvæði undir hatt hálendisþjóðgarðs. Það væri skynsamleg byrjun.

Virðulegi forseti. Stærðin er ekki það sem skiptir máli.