151. löggjafarþing — 33. fundur,  8. des. 2020.

Hálendisþjóðgarður.

369. mál
[17:38]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla strax að lofa hv. þm. Smára McCarthy að ég mun ekki gera tillögu um að stofnaður verði sérstakur sjóður innan stofnunar sem ég leggst á móti að verði stofnuð, bara svo að það sé afgreitt. En hv. þingmanni virðist eitthvað hafa misheyrst, ég sagði ekki að ég teldi sjóð eða stofnun vanta í dag. (SMc: En þetta er samt ekki þarna.) Ef markmiðið er að styðja við þær rannsóknir er fullt af sjóðum, fyrirtækjum eða stofnunum sem geta gert það undir núverandi hatti í stað þess að setja á fót sérstaka stofnun þar um. Erum við ekki nokkurn veginn á svipuðu róli núna, ég og hv. þingmaður, og skiljum hvor annan? Ég tel ekki þörf á því að stofna, bara svo það sé alveg skýrt, miðhálendisþjóðgarð til að ná fram markmiði um auknar rannsóknir á hálendinu. Því síður tel ég ástæðu til að stofna sérstakan sjóð innan stofnunar sem ég tel ekki ástæðu til að stofna. Ég vona að þetta svari spurningu hv. þingmanns. Að því sögðu er mikilvægt að halda því til haga að það er alveg sjálfsagt að rannsaka það sem tilefni er til að rannsaka á hálendinu; ég leggst ekki á móti því, síður en svo.