151. löggjafarþing — 33. fundur,  8. des. 2020.

Hálendisþjóðgarður.

369. mál
[18:27]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Birgir Þórarinsson talar um djúpstæða tortryggni, djúpstætt vantraust. Ég átta mig ekki alveg á hvað hv. þingmaður á við og hvar það djúpstæða vantraust er að finna. Hann kann kannski að skýra það betur. Þar sem ég þekki best til, á Snæfellsnesi eins og ég nefndi áðan, er mikil ánægja með starfsemina. Þar hefur brugðið til allt annarrar áttar varðandi þjónustu. Skapast hafa heilsársstörf á svæðinu sem ekki voru áður fyrir hendi. Áður fyrr voru þetta sumarstörf og hlutastörf en nú hefur jafnvel tekist að ráða fólk til starfa allt árið. Svæði hafa opnast fyrir ferðamenn sem þeir hafa notið allt árið. Við erum að tengja þetta ferðaþjónustu sem við getum svo sem gert en þurfum ekki að gera. Við skulum taka landið okkar og náttúruna og umhverfið út fyrir sviga. Það sem mestu máli skiptir er að við erum, eða erum ekki, að marka spor inn í framtíðina. Við erum að leggja okkar lóð á vogarskálina við að verja ósnortna náttúru.

Er hv. þingmaður ekki sammála mér um að við þurfum að skipuleggja og verja landið, vernda það og beina fólki á réttar brautir? Í ljósi þess að við erum og viljum teljast ferðamannaþjóð og ætlum að taka á móti kannski milljón ferðamanna eða tveimur á hverju ári, er ekki nauðsynlegt að við skipuleggjum okkur og setjum málið í góðar skorður?