151. löggjafarþing — 33. fundur,  8. des. 2020.

Hálendisþjóðgarður.

369. mál
[18:32]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst hv. þingmaður á stundum minna mig á þekkta persónu úr Spaugstofunni. Það er slegið úr og í. Hann hefur ekkert á móti þjóðgörðum en vill bara ekki þennan þjóðgarð. Hann vill leggja áherslu á og hefur skilning á því að við ætlum að byggja þetta land upp sem ferðamannaland, en þarf ekki nokkuð til? Við vitum að landið var undir gríðarlega miklu álagi undir lok flóðsins síðasta og við máttum hafa okkur öll við. Sumir segja að það sjái þegar á landinu vegna þess að við vorum ekki undir þetta búin. Við erum að reyna að skipuleggja landið, hvort sem mönnum þykir það gott eða vont, að koma skikki á hlutina. Það er kannski ekkert aðall okkar Íslendinga að mörgu leyti, en það eru ríkar skoðanir varðandi þetta mál. Við vitum það. Það eru miklar tilfinningar, það vitum við líka. Það eru fyrst og fremst þeir sem hafa nytjað löndin með sínum hætti, jafnvel mann fram af manni, sem hafa ríkar skoðanir og vilja að tekið sé tillit til viðhorfa þeirra. Það er mjög eðlilegt og ég tel að frumvarpið endurspegli það að nokkru leyti. Hv. þingmaður nefnir að við verðum kannski ekki mjög aflögufær um fjármuni til að verja til uppbyggingar á næstu árum. Það er alveg rétt. Ég held að það sé alveg laukrétt hjá hv. þingmanni. En það kom fram hjá hæstv. ráðherra í morgun að reynsla annarra þjóða, beggja vegna Atlantsála, sé að þessi svæði (Forseti hringir.) skapa tekjur og draga að fólk og þá þurfum við að hafa svæðin vel undir það búin.