151. löggjafarþing — 33. fundur,  8. des. 2020.

Hálendisþjóðgarður.

369. mál
[18:56]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni og ég er sammála honum um það. Það er rétt hjá honum. Mér hugnast ekki að þessi verðmæti fari forgörðum, þ.e. kyrrðin og upplifunin sem felst í því að fara um hálendið. Ég ferðaðist einu sinni um eyðimörk í Jórdaníu sem heitir Wadi Rum. Þar upplifði ég mikla kyrrð og það var alveg stórkostleg upplifun, ekki ósvipað og upp á hálendi Íslands. Þar var ferðast um á úlföldum. Þar var ekkert skipulag en samt var þessi varðveisla algjörlega til staðar. Ég held einmitt að það sé hætta á því, og hv. þingmaður nefndi það í ræðu sinni, að það yrði fjölgun, það yrði meiri umferð, og þá held ég að þessi upplifun sé í hættu. Ég get ekki séð og hef ekki heyrt fréttir af því að það sé einhver óreiða á hálendinu hvað umferð varðar.

Hv. þingmaður nefndi réttilega að það verði að vera samtal og meira samtal. Ég fagna því að hann sé þeirrar skoðunar. Það er nákvæmlega það sem skort hefur í þessu máli, samtal við þá sem hafa hagsmuna að gæta. Hv. þingmaður nefndi sáttmála og þetta er allt saman hárrétt hjá honum. Þess vegna er afar brýnt að menn viðurkenni að þeim hafi mistekist að ná þessari sátt. Það er nauðsynlegt að fara yfir það mál ofan í kjölinn í nefndinni.

Ég er hins vegar ekki sammála því að okkur hafi tekist vel til hvað öll friðlýst svæði varðar. Á Snæfellsnesi hefur svo sannarlega tekist vel til, en t.d. varðandi Þingvallaþjóðgarð er ég ekki sammála. Það er margt sem þarf að laga þar, (Forseti hringir.) t.d. umgengni, bílastæði og annað slíkt. Það kostar mikla peninga. Eigum við þá ekki bara að einbeita okkur að því sem þegar er komið, setja krafta og fjármuni í það, (Forseti hringir.) frekar en að vera að færa út kvíarnar, stofna enn einn þjóðgarðinn og setja þá upplifun í hættu sem við höfum rætt hér?