151. löggjafarþing — 33. fundur,  8. des. 2020.

Hálendisþjóðgarður.

369. mál
[22:49]
Horfa

Sunna Rós Víðisdóttir (P):

Herra forseti. Ég fagna þeirri hugmynd að stofnaður verði hálendisþjóðgarður. Hálendið er sameiginleg auðlind okkar allra, mikilvæg náttúrugersemi. Þau markmið sem útlistuð eru í frumvarpinu og liggja að baki stofnun þjóðgarðsins eru ekki af verri endanum. Það eru háleit og samfélagslega verðmæt markmið, enda er um ómetanleg auðlind að ræða. Að varðveita og vernda slíka auðlind fyrir ágangi og eyðileggingu ætti að teljast sjálfsagt mál. Það ætti að vera augljóst að sjálfbær þróun, atvinnu- og verðmætasköpun, vernd foldar og flóru, endurheimt vistkerfa, uppbygging og styrking byggða ásamt þeirri hugsjón að varðveita ákveðin svæði um ókomna tíð svo almenningur geti notið þeirra er ekki einungis heilladrjúg heldur einnig falleg og jafnvel rómantísk hugmynd.

Þjóðgarðar borga sig. Reynslan sýnir að það fjármagn sem þjóðgarðar fá skilar sér margfalt til baka. Það er ekki svo að excel-skjal eða beint inn- og útstreymi fjármagns sé eini mælikvarði verðmæta í samfélagslegum skilningi. En þrátt fyrir þessi fögru markmið er alveg ljóst í ljósi umsagna og umræðna hér í kvöld að mjög skiptar skoðanir eru á þeirri útfærslu sem stjórnvöld leggja til. Ríkar áhyggjur eru af skipulagsvaldi sveitarfélaga, af virkjunaráætlunum, af athafnafrelsi og aðgengi almennings, af valdheimildum ráðherra og af nýtingu auðlinda hálendisins. Hæstv. umhverfisráðherra hefur svarað þeim spurningum opinberlega sem heitast brenna á þeim sem láta sig málið varða. Það virðist þó ekki duga til. Það er órói og óvissa þrátt fyrir víðtækt samráð, þrátt fyrir haldgóð svör sem ættu að eyða óvissu. Það veit ekki á gott að svo þjóðhagslega mikilvægt mál sé á þeim stað. Það þarf frekara samtal um einstaka liði frumvarpsins og hvaða áhrif það hefur á mismunandi hópa og hagsmunaaðila. Ég hvet til þess að hv. umhverfis- og samgöngunefnd taki tillit til þess við þinglega meðferð málsins og það væri ákjósanlegast að stofnun þjóðgarðs væri í sem mestri sátt þjóðarinnar.