151. löggjafarþing — 33. fundur,  8. des. 2020.

Hálendisþjóðgarður.

369. mál
[23:23]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Enn ræðum við frumvarp um stofnun miðhálendisþjóðgarðs. Ég hef í dag og í kvöld hlustað á nokkrar ræður hv. þingmanna um þetta mál. Afstaða mín til málsins er enn óbreytt og er í raun einföld: Nei. Ég segi nei. Ég tel að þetta sé allt of stórt skref að stíga. Ég er þeirrar skoðunar fyrst og fremst að við eigum að afla okkur meiri reynslu í rekstri þjóðgarða og sérstaklega þeirra stærri. Ég tel mig í raun mikinn náttúruverndarsinna þó að ég teljist líklega til hins grenjandi minni hluta, sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon kallaði svo í ræðu fyrr í kvöld og átti þá líklega við þá sem vilja ekki ana út í að gera stóran hluta landsins að þjóðgarði. Ég tel að mikil vinna sé óunnin í því að vinna með þeim aðilum sem kalla mætti hagsmunaaðila í þessu máli og að stíga eigi styttri skref og gera ákveðin afmörkuð svæði að þjóðgörðum áður en þetta risaskref er stigið.

Og með hverjum á að vinna til að ná þessari sátt? Ég get nefnt bændur sem hafa þarna upprekstrarrétt og hafa margir hverjir unnið gott starf í því að græða upp landið, halda því við og gæta þess, enda hafa þeir þarna aldagamlan nýtingarrétt. Ég nefni einnig þá sem hafa þarna veiðiréttindi, sem oft eru sömu aðilar, bændurnir, á aðliggjandi svæðum en einnig þá sem nýtt hafa sér hálendið, eins og ferðaþjónustufyrirtæki, ferðafélög, gönguklúbba og fleiri slíka aðila, einnig þá sem hafa reist sér nokkurs konar sæluhús á þessu svæði, en þau eru fjölmörg á hálendinu og reyndar er þar í mörgum tilfellum um að ræða sömu aðila og hér hafa verið nefndir. Við eigum auðvitað að fá meiri reynslu á þessu sviði áður en við ráðumst í slíkt verkefni sem hér um ræðir. Þegar fundið er að framgangi málsins og málsmeðferðinni, í aðdragandanum að framlagningu þessa frumvarps, er átt við það hvort hugmyndir eins og um stofnun minni þjóðgarða, t.d. tengt Vatnajökulsþjóðgarði eða á öðrum stöðum, hafi verið skoðaðar svo vel sé.

Af hverju þessi þvermóðska að fara út í svona risastóran þjóðgarð? Hvaðan er þessi þvermóðska komin, herra forseti? Hvaðan er hún komin og í hvaða tilgangi? Menn ætla að ana út í verkefni sem þeir ráða ekki við. Menn ætla að stofna þarna hálendisþjóðgarð yfir meira en þriðjung landsins með þá reynslu í farteskinu sem við höfum af Vatnajökulsþjóðgarði sem hefur verið ansi misjöfn. Menn ætla að ana út í þetta til að geta sett á sig einhvers konar merkimiða um að hafa stærsta þjóðgarð í Evrópu staðsettan hér á landi, og geta státað af því. Það er ekkert annað. Menn ætla að fara út í þetta verkefni vitandi vits að þeir hafi ekki burði til að gera það með sómasamlegum hætti. Ég geri einfaldlega þá kröfu að við lærum áður en við göngum svona langt eins og raun ber vitni í þessu máli.

Ég sé að tími minn líður mjög hratt. Ég ætla aðeins að fara frekar yfir þessar pólitísku línur og einnig ýmislegt annað. Afstaða stjórnarflokkanna, sérstaklega þeirra tveggja sem hafa lýst yfir efasemdum um þetta mál, er afskaplega sérkennileg. Sérstaklega vil ég hér á síðustu sekúndunum minnast á Framsóknarmenn sem hafa viljað styrkja sveitarfélögin í máli sem varðar sameiningu sveitarfélaga en stíga svo fram í þessu máli, og þá í stjórn, og veikja með því sveitarfélögin, taka af þeim skipulagsvaldið.