151. löggjafarþing — 34. fundur,  9. des. 2020.

rannsókn og saksókn í skattalagabrotum .

373. mál
[16:42]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Kannski læt ég bara duga að segja að það hvíli ekkert minni ábyrgð á ríkisskattstjóra en á skattrannsóknarstjóra, að sjá til þess að skattrannsóknum sé fylgt eftir af krafti. Þvert á móti fær ríkisskattstjóri nákvæmlega sömu ábyrgð á sínar herðar á því að tryggja að skattrannsóknum sé sinnt lögum samkvæmt og með þeim fjármunum sem allir fylgja, krónu fyrir krónu, inn í nýtt embætti. Hér eru viðraðar áhyggjur af því að eitthvað af því rekstrarfé kunni að verða nýtt í annað. Eins og ég rakti í máli mínu held ég að meiri líkur séu til þess að svigrúm vaxi með því að við erum að koma allri starfseminni fyrir á einn og sama staðinn. Við munum geta nýtt mannskap betur. Þetta nýja verklag er sömuleiðis til þess fallið að draga úr tvíverknaði og hafa skarpari skil á milli embætta þannig að ekki sé verið að skoða eitt og sama málið margoft á fleiri en einum stað. Ég lít þannig á að hér sé um mikið framfaramál að ræða og ef eitthvað er ættum við að geta séð betri nýtingu fjármuna í kerfinu.