151. löggjafarþing — 34. fundur,  9. des. 2020.

utanríkisþjónusta Íslands.

19. mál
[20:05]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta utanrmn. (Logi Einarsson) (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég er í sjálfu sér ekkert hissa á því, í ljósi ummæla hv. þingmanns síðustu vikur, að honum finnist ekki alltaf liggja í augum uppi af hverju menn eru að tjá sig. Hér er farið yfir það að engin rök séu færð fyrir því af hverju ráðherra telur nauðsynlegt að festa með einhverjum hætti fjölda sendiherra í tilteknum atriðum. Engin rök eru færð fyrir því af hverju tímabundnar ráðningar ráðherra eru fimmtungur af heildartölunni og af hverju þær eru til fimm ára. Í skýrslunni frá 2017, um utanríkisþjónustu til framtíðar, er beinlínis talað um að ekki sé tímabært að festa slíka hluti um of fyrr en búið sé að gera heildarúttekt. Hæstv. ráðherra er ekkert samkvæmur sjálfum sér í þeirri skýrslu sem hann birtir 2017 og síðan því frumvarpi sem hann kemur hér fram með. Það er engin mótsögn í því að vera jákvæður gagnvart ýmsum þáttum í frumvarpinu en segja samt sem áður að byrjað sé á öfugum enda. Það getur vel verið að heildarendurskoðun á lögunum myndi t.d. fela í sér að allt öðruvísi yrði staðið að hugmyndum um fjölda eða tímabundnar ráðningar. Ég skil ekki hvað er sérkennilegt í því.