151. löggjafarþing — 35. fundur,  10. des. 2020.

kostnaður við ný markmið í loftslagsmálum.

[10:32]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Eftir þrjú ár í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna og Framsóknarflokks kynnir forsætisráðherra ný markmið í loftslagsmálum. Í stað þess að draga losun saman um 40%, sem hefur þótt metnaðarlítið, er nú stefnt að 55% samdrætti. Það vekur athygli að þetta er kynnt í Morgunblaðinu í morgun eftir að ríkisstjórnin hefur lagt fram sín síðustu fjárlög, sem eru til umræðu í þinginu í dag. Þetta er ekki svo langt frá markmiðum Samfylkingarinnar. Í ábyrgu leiðinni og þingmáli okkar um græna atvinnubyltingu, sem liggur nú fyrir þinginu, gerum við ráð fyrir 60% samdrætti og látum fylgja markvissar aðgerðir um hvernig eigi að efna það.

Það sem vefst ögn fyrir mér núna er að það var ljóst þegar við vorum að vinna okkar mál að í þetta þarf fjármuni. Við áætluðum að kostnaðurinn við aðgerðirnar yrði um 20 milljarðar kr. strax á næsta ári þó að vissulega skili eitthvað sér til baka að hluta. Við upphaf 2. umr. fjárlaga í dag liggur hins vegar fyrir að þessi nýju áform hæstv. forsætisráðherra eru ófjármögnuð, einungis 0,1% aukning af landsframleiðslu til umhverfismála, við þekkjum það, og svo sannarlega er ekki gert ráð fyrir þessum nýju markmiðum í fjárlögum.

Ég spyr því einfaldlega: Er ríkisstjórnin ekki heldur ósamstiga ef hæstv. fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins er ekki tilbúinn til að fjármagna markmið hæstv. forsætisráðherra og formanns Vinstri grænna í fjárlögum? Kemur til greina, hæstv. fjármálaráðherra, að stjórnarflokkarnir greiði atkvæði einfaldlega með breytingartillögu Samfylkingarinnar við fjárlög, um aukin framlög til loftslagsmála, svo einhver raunverulegur möguleiki sé á að við getum efnt þetta? Eða er þetta einungis billegt kosningaloforð úr forsætisráðuneytinu?