151. löggjafarþing — 35. fundur,  10. des. 2020.

kostnaður við ný markmið í loftslagsmálum.

[10:34]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég tel að þessi ríkisstjórn hafi sýnt mjög skýrlega vilja sinn í verki í þessum málaflokki. Ef við tökum til samanburðar fjármálaáætlun sem lá hér fyrir þinginu á árinu 2017 og var sú sem tekin var upp af núverandi ríkisstjórn, og skoðum hvað breyttist í umhverfismálum við samsetningu þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr þá sjáum við muninn mjög skýrt. Ef horft er til ársins 2022 var í eldri fjármálaáætlun gert ráð fyrir því að við settum 16 milljarða til umhverfismála á árinu 2022. Því var strax breytt þannig að stefnt var að því að 20 milljarðar færu í það, m.a. til að ná meiri árangri í loftslagsmálum. Smám saman hefur sú fjárhæð verið að hækka á árinu 2022. Það er eftir rúmt ár sem árið 2022 gengur í garð. Núna stendur fjármálaáætlun, sem liggur fyrir þinginu, þannig að árið 2022 er það komið upp í 24,5 milljarða — 24,5 milljarða. Þannig að við erum að tala um í kringum 50% aukningu, og rúmlega það, í þennan málaflokk, 8,5 milljarða á ári. Það er viðbótin sem farið hefur í umhverfismál. Þessi ríkisstjórn uppfærði áætlanir sínar í sumar og kynnti það sérstaklega.

Nú er verið að setja markið enn hærra fyrir árið 2030 hvað varðar loftslagsmarkmiðin og ég hefði haldið að menn myndu taka því fagnandi. Við eigum auðvitað eftir að útfæra það á hverju ári og mæla árangurinn á hverju ári, nákvæmlega hvernig við ætlum að komast á leiðarenda. Eitt af því sem við erum að gera er að gera einkageiranum betur kleift að koma með okkur í þessa vinnu með sérstöku frumvarpi um ívilnanir og skattalega hvata fyrir einkageirann til fjárfestinga í grænum lausnum. Það er sérstakt þingmál sem kemur hér. (Forseti hringir.) Þannig að þetta er ekki allt saman í einu þingmáli heldur eru þetta mörg þingmál og fjármögnun annars staðar.