151. löggjafarþing — 35. fundur,  10. des. 2020.

kostnaður við ný markmið í loftslagsmálum.

[10:37]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég verð að játa að ég hef ekki lesið tillögur Samfylkingarinnar um þetta mál en ef ég heyrði rétt hjá hv. þingmanni þá sagði hann að þær kostuðu 30 milljarða. Mér finnst sú tala bara út í hött, ef það er rétt tekið eftir hjá mér að tillögurnar kosti 30 milljarða. Það var það sem kom fram í ræðu áðan. (LE: 20 milljarða.) Það kostar 20 milljarða, afsakið. Við teljum að þeim árangri sem að er stefnt með þessari nýju yfirlýsingu megi ná með því að færa milljarð sérstaklega í þessi verkefni. Ég er ekki alveg sannfærður um að í rúmlega 1.000 milljarða fjárlögum þurfi að bæta við 1 milljarði í þennan málaflokk til að árangrinum megi ná. Það sem við eigum að gera er að skoða hvort við getum forgangsraðað rúmlega 1.000 milljörðum þannig að þessi eini milljarður að meðaltali á ári á tíu árum fari til þessara verkefna. Það eru margar leiðir að því markmiði, eins og ég sagði áðan, m.a. að koma með ívilnanir fyrir einkageirann (Forseti hringir.) og það frumvarp er að koma núna til þingsins.