151. löggjafarþing — 35. fundur,  10. des. 2020.

valfrelsi í heilbrigðiskerfinu.

[10:40]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Mér finnst þessar tilraunir til þess að skilgreina stefnu Sjálfstæðisflokksins í einum málaflokknum á eftir öðrum vera hálfhallærislegar. Við höfum áratugasögu um að vilja virkja kosti einkaframtaksins í heilbrigðismálum. Það höfum við sýnt í verki, m.a. þegar við vorum síðast í heilbrigðisráðuneytinu. Þá tryggðum við að Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins var endurfjármögnuð, leyfi ég mér að segja, með því að fé fylgir sjúklingum. Þannig losnaði um alls konar stíflur sem byggðu á því að fólk þurfti áður að vera skráð á einhverja tiltekna heilsugæslustöð og það varð til samkeppni, sem er nú að færast yfir á landsvísu.

Hv. þingmaður fjallaði hérna um stefnu heilbrigðisráðherra. Ég ætla að koma aðeins til varnar fyrir heilbrigðisráðherra hvað það snertir að ráðherrann hefur lagt áherslu á að við þurfum að forgangsraða fjármunum til þess að leysa vandann inni á spítölunum sem snertir fólk sem á ekki þar lengur heima og hefur fengið úrlausn heilbrigðisvandamála sinna. Þetta er rétt hjá heilbrigðisráðherranum, það þarf að leita lausna til að gera þetta. Meðal annars þess vegna erum við núna að setja í 2. umr. fjárlaga fjármögnun á bak við 100 ný hjúkrunarrými svo að við hámörkum afkastagetu heilbrigðiskerfisins í heild, vegna þess að það er dálítið hættuleg hugsun að setja þetta allt upp í einhver síló og skoða ekki innbyrðissamspil einstakra þátta heilbrigðiskerfisins. En ég átta mig ekki alveg á því hvaðan menn fá hugmyndir um að Sjálfstæðisflokkurinn hafi eitthvað dregið úr áherslum sínum á að það beri að nýta kosti einkaframtaksins í heilbrigðiskerfinu.