151. löggjafarþing — 35. fundur,  10. des. 2020.

launamál og hækkun almannatrygginga.

[10:59]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Þrjár laufléttar spurningar fyrir ráðherra launamála ríkisins. Í vinnslu við fjármálaáætlun og fjárlög þetta árið hefur margt áhugavert komið fram og margt af því hefur verið um launamál. Til að byrja með var það vegna hallareksturs Landspítala – háskólasjúkrahúss. Um það hef ég spurt hæstv. ráðherra áður og hann segir að ráðuneytið hafi reiknað launahækkanir samkvæmt kjarasamningum lækna rétt, en launabókhald Landspítala – háskólasjúkrahúss sýnir samt hækkun umfram þá útreikninga. Maður stendur eftir og spyr: Bíddu, hvað er þá rétt í raun og veru, útreikningarnir eða rauntalan sem greidd er í laun þegar allt kemur til alls?

Næsta spurning varðar líka laun og er mjög einföld: Af hverju fá almannatryggingar ekki lífskjarasamninga; lífeyrir öryrkja eða aldraðra og atvinnulausra? Af hverju eru launahækkanir samkvæmt lífskjarasamningum ekki inni í fjárlögum?

Síðast spyr ég um atriði sem ég hef spurt ráðuneytið nokkrum sinnum um á fundum fjárlaganefndar: Um mitt ár var launahækkunum þingmanna og ráðherra frestað til áramóta. Ég hef verið að spyrja hversu mikið laun ráðherra og þingmanna hækki um áramótin. Fyrst svaraði ráðuneytið: Við erum ekki með það núna. Við svörum því eftir fundinn. Svo leið helgi, rétt áður en umræðan kláraðist, og ekkert svar. Ýtt var á eftir því þegar fulltrúar ráðuneytisins komu á fund okkar en þeir sögðust ekki heldur vera með svörin þá og ætluðu að svara strax eftir fundinn. Nú er kominn fimmtudagur og engin svör hafa komið enn. Af hverju svarar ráðuneytið ekki spurningum fjárlaganefndar?