151. löggjafarþing — 35. fundur,  10. des. 2020.

launamál og hækkun almannatrygginga.

[11:01]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Fyrst varðandi launamálin og hallarekstur stofnana — í þessu tilviki er talað um Landspítalann sérstaklega — þá gerum við ráð fyrir því við fjárlagagerðina að allar umsamdar launahækkanir séu fjármagnaðar, tryggðar öllum ríkisaðilum í fjárlögum. Einstaka ríkisaðilar gera síðan sérsamninga, hver fyrir sig. Inni á stofnunum getur þannig komið til þess, alveg óháð kjarasamningum eða niðurstöðu þeirra, að það verði launaskrið, að menn telji ástæðu til þess að halda í einstaka heilbrigðisstarfsmenn o.s.frv. Á þeirri þróun verða stofnanirnar sjálfar að bera ábyrgð. Þær geta ekki óskað eftir því að fá tillögur frá fjármálaráðuneytinu til að bæta það upp sérstaklega vegna þess að það þyrfti væntanlega yfir alla að ganga, ekki satt?

Varðandi almannatryggingar og spurninguna hvers vegna ekki sé nákvæmlega sama viðmið í almannatryggingum og á við um launahækkanir lífskjarasamninga, þá vænti ég þess að hér sé verið að vísa til þess að í lífskjarasamningunum var áhersla á sérstaka hækkun lægstu launa. Í almannatryggingum erum við sérstaklega að styðja við þá sem eru með lága framfærslu. Aðalsvarið við þessari spurningu liggur í því að almannatryggingakerfið er bótakerfi. Það er ekki launakerfi ríkisins. Bætur eru ekki laun samkvæmt lögum. Viðmiðið um hækkun frá einu ári til annars eru almennar umsamdar kjarahækkanir á vinnumarkaði, 69. gr. laganna sem við ræðum svo oft og iðulega hér. Vilji menn breyta þessu þannig að þessar tilteknu bætur eigi að breytast í takt við breytingu lægstu launa í landinu þarf það að standa í lögum. Við erum bara að fylgja lögum um þetta efni.