151. löggjafarþing — 35. fundur,  10. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[12:04]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hvert er mikilvægasta málið í augum kjósenda? Það eru heilbrigðismálin. Könnun eftir könnun mælist það vera mikilvægasta málið í augum kjósenda. Þess vegna furða ég mig á því að í þessu fjárlagafrumvarpi er haldið í sérstaka aðhaldskröfu á sjúkrahús og reyndar líka á skóla og hjúkrunarheimili. Þetta er staðreynd, það er haldið í aðhaldskröfuna. Á tímum Covid er það furðulegt. Það eru aðrar stofnanir sem búa ekki við aðhaldskröfu og sömuleiðis mun aðhaldskrafan á sjúkrahús detta út eftir tvö ár. Hvernig stendur á því að þessi ríkisstjórn vill halda í þessa aðhaldskröfu, m.a. á heilbrigðiskerfið? Þetta eru yfir 2 milljarðar á kerfið í heild sinni.

Til viðbótar er Landspítalinn að glíma við um 400 millj. kr. halla, sem hann þarf að vinna upp. Á tímum neyðarástands og hættuástands er þetta fáránleg pólitík. Í þeim hagræðingaraðgerðum sem spítalinn er búinn að kynna fyrir okkur kemur m.a. fram að Landspítalinn þarf að loka geðendurhæfingardeildinni, út af hagræðingarkröfunni og út af hallanum, en á móti efla þeir dagdeildina. Það þarf að draga úr ómun á hjartarannsóknarstofu og það þarf að fækka dögum og breyta kvenlækningadeild.

Er þetta pólitíkin sem Vinstri grænir og Framsóknarmenn vilja setja fram? Hvernig stendur á því að þið voruð ekki tilbúin í meðförum nefndarinnar til að hreinsa upp þennan halla? Ég kalla eftir því að þessi halli verði hreinsaður upp og það gera fleiri. Við höfum gert það áður. Árið 2017 var tekin sú ákvörðun að hreinsa upp halla Landspítalans og annarra ríkisstofnana þannig að það hefði ekkert verið neitt stílbrot hvað það varðar. Það er bara slæm pólitík af ykkar hálfu að halda annars vegar í sérstaka aðhaldskröfu og að láta Landspítalann þurfa að vinna upp tæplega 400 millj. kr. halla. Þið höfðuð (Forseti hringir.) næg tækifæri til að gera breytingartillögu, til að gera þetta betra, þið gerið það á öðrum sviðum, en þið gerið það ekki gagnvart Landspítalanum og það er ámælisvert.